Umræðan

Viðbótar­líf­eyris­sparnaður og kostnaður við hann

Baldvin Ingi Sigurðsson skrifar

Einhver besti sparnaður sem völ er á er viðbótarlífeyrissparnaðurinn. Það skiptir hins vegar máli hvernig hann er ávaxtaður og þar er kostnaðurinn lykilatriði.

Fjárfestar geta strax í dag hugað að kostnaðinum með því að skoða lykilupplýsingaskjal fyrir þá sparnaðarleið sem þeir eru í.

Dæmi - Lífeyrisauki erlend verðbréf

Hér er tekið dæmi af handahófi, samkvæmt lykilupplýsingablaði fyrir Lífeyrisauka erlend verðbréf sem er rekinn af Arion banka eru vigtir eftirfarandi:

• Erlend hlutabréf 80%

• Erlend skuldabréf og innlán 14%

• Erlendar sérhæfðar fjárfestingar 5%

• Innlend skuldabréf og innlán 1%

Kostnaður Lífeyrisauka – erlend verðbréf er 1,37% á ári sem er í öllu tilliti hár kostnaður og mun koma verulega þungt niður á endanlegri niðurstöðu. Nýlega kynnti Lífeyrisauki lækkun á umsýslukostnaði um 0,05% og sagði í tilkynningu að: „Þessi lækkun er liður í okkar markmiði að tryggja samkeppnishæf kjör og hámarka ávöxtun sjóðfélaga“. Þetta er gott markmið en heildarkostnaðurinn væri um 1,32% eftir lækkun, sem sagt enn of hár.

Í dæmaskyni gefum við okkur að aðili greiði 60.000 kr. á mánuði í viðbótarlífeyrissparnað frá 25 ára aldri til 65 ára aldurs. Miðað við 6% ávöxtun safnsins ætti viðkomandi um 84 m.kr. fyrir skatta við 65 ára aldur. Ef kostnaðurinn væri 0,2% (t.d. Vanguard) í stað 1,32% (Lífeyrisaukakostnaður) yrði niðurstaðan um 113 m.kr. fyrir skatta. Sparifjáreigandinn verður af 29 m.kr. vegna kostnaðar sem bankinn tók vegna stýringarinnar.

Að mínu mati geta lífeyrissjóðirnir heldur ekki keppt við erlenda sjóði á borð við Vanguard hvað varðar sparnað.

Stærsta eign Lífeyrisauka – erlend verðbréf er Katla Fund – Global Equity sem er sjóður í rekstri dótturfélags Arion banka með vigt upp á 15,1%. Ef stærsti eignarhluturinn er í sjóði hjá dótturfélagi bankans er hætta á hagsmunaárekstrum og mikilvægt að sparifjáreigendur séu vel upplýstir um hann. Það er þó ekki einsdæmi að stýringaraðilar setji eignir fjárfesta í tengda sjóði.

Aðrir kostir

Hefðbundnir lífeyrissjóðir eru þó almennt með leiðir fyrir viðbótarlífeyrissparnað. Þar eru ekki hvatar til að hagnast né að fjárfesta í eigin afurðum því þeir eru í raun sjálfseignarstofnanir.

Almenni lífeyrissjóðurinn er með ávöxtunarleið sem er erlent verðbréfasafn sem er með um 65% í erlendum hlutabréfum, 25% í erlendum skuldabréfum og um 10% í innlánum. Kostnaður skv. lykilupplýsingablaði er 0,77% sem er talsvert lægri en í dæminu að ofan hjá Arion. Miðað við sömu forsendur og áður hefði fjárfestir endað með um 97 m.kr. fyrir skatta hjá Almenna, mun betri niðurstaða en 84 m.kr. hjá Arion. Athugið að ekki er tekið tillit til kostnaðar við kaup á gjaldeyri.

Sparnaðareigendur hafa val um að flytja viðbótarlífeyrissparnaðinn til annars stýringaraðila en stundum fylgir því einhver kostnaður.

Að mínu mati geta lífeyrissjóðirnir heldur ekki keppt við erlenda sjóði á borð við Vanguard hvað varðar sparnað en auðvitað gilda önnur lögmál um samtrygginguna þar sem lífeyrissjóðirnir eru gríðarlega mikilvægir. Þess má geta að ekki er fjallað sérstaklega í þessari grein um þýska sparnaðar- og tryggingaformið fyrir viðbótarlífeyrissparnað sem er ein af þeim leiðum sem er í boði hér á landi. Það form hefur aðra uppbyggingu en þær sem að ofan greinir.

Hvernig væri að auka frelsið?

Það er áberandi í umræðu um fjármál og efnahagsmál að tala um háan vaxtakostnað á Íslandi en meira mætti tala um kostnað við að fjárfesta viðbótarlífeyrissparnaði almenns launafólks. Þessi kostnaður virkar eins og eignaskattur enda tekinn af eignahlið sama hver árangurinn er.

Í ljósi ofangreinds er það áleitin spurning hvenær íslensk yfirvöld ætla að auka frelsi almennings til þess að ráðstafa sínum viðbótarlífeyrissparnaði sjálft þegar kemur að ávöxtunarleiðum? Til viðbótar er í mörgum tilfellum ekki hægt að fjárfesta í þeim hlutföllum eignaflokka sem mest væri viðeigandi fyrir sparifjáreigandann m.t.t. áhættugetu og áhættuvilja. Það myndi leysast með því að auka frelsi sparifjáreiganda.

Því minni sem kostnaður er að öðru óbreyttu væri það ekki aðeins hagfellt fyrir almennt launafólk heldur fengi ríkið einnig hærri skattgreiðslur af lífeyrissparnaðinum.

Það er áleitin spurning hvenær íslensk yfirvöld ætla að auka frelsi almennings til þess að ráðstafa sínum viðbótarlífeyrissparnaði sjálft þegar kemur að ávöxtunarleiðum?

Nú eru margir að missa réttinn til að greiða viðbótarlífeyrissparnað inn á húsnæðislán vegna væntanlegra lagabreytinga þar um og mikilvægt að auka frelsi almennings til að ráðstafa sparnaðinum. Launafólk hefur getað greitt niður sín lán skattfrjálst og án kostnaðar. Með því að heimila fólki ekki lengur að greiða niður sín lán mun féð fara í dýrar fjárfestingaleiðir sem eru í senn áhættusamari og líklegri til að skila fólki lakari niðurstöðu enda eru vextir á lánum hér háir. Við því þarf að bregðast og koma til móts við fólk með því að auka frelsið við ráðstöfun hans.

Í þessum viðbótarlífeyrissparnaðarleiðum er almennt fjárfest í hlutabréfa- og skuldabréfasjóðum og tekin þóknun fyrir. Til dæmis tekur Arion banki þóknun fyrir að velja sjóði fyrir sparifjáreigandann og svo þarf að greiða þóknun fyrir undirliggjandi sjóði, sem sagt tvöfalt lag þóknana. Það sem hér er lagt til er að eyða milliliðnum út og að sparifjáreigendur fái sjálfir að ráðstafa beint í til dæmis Vanguard sjóði þar sem þóknanir eru afar hagstæðar. Slíkt getur sparað eigendum viðbótarlífeyrissparnaðar tugi milljónir króna.

Hvers vegna ætti einhver að greiða þennan kostnað?

Sterk rök eru fyrir því að fjármálaeftirlitið ætti að tryggja að aðilar sem bjóða upp á þennan sparnað sýni hvernig sparnaðarleiðinni hefur vegnað með hliðsjón af viðmiði (e. benchmark).

Upplýsingarnar sem gefnar eru upp eru ekki nægjanlegar að mínu mati til þess að sparnaðareigendur geti tekið upplýsta ákvörðun. Það er ekki í anda PRIIPS reglugerðarinnar sem þessir aðilar þurfa að fylgja.

Einu verjanlegu rökin fyrir því að greiða háar þóknanir eins og í þessum leiðum sem oftast er boðið uppá hjá íslenskum aðilum er að stýringaraðilinn sé það góður yfir tíma, að teknu tilliti til áhættu, að hann nái betri árangri en hægt væri að fá með því að fjárfesta í vísitölusjóðum. Þar kemur viðmið inn sem mikilvægt tæki til að fjárfestar sjái hvaða gæði þeir eru að fá og fái að vita hver raunverulegur árangur er miðað við tiltekið viðmið með sambærilega áhættu.

Með því að heimila fólki ekki lengur að greiða niður sín lán mun féð fara í dýrar fjárfestingaleiðir sem eru í senn áhættusamari og líklegri til að skila fólki lakari niðurstöðu enda eru vextir á lánum hér háir.

Það hefur sýnt sig yfir tíma að sjóðir með háan kostnað koma ekki vel út úr samanburðinum við ódýru sjóðina (vísitölusjóði). Og hvað þá sjóðir sem eru með tvöfalt lag kostnaðar eins og sjóðasjóðir sem er í raun formið á viðbótarlífeyrissparnaðinum eins og ávöxtunarleiðir séreignarsparnaðar eru útfærðar hérlendis.

Eins og sagði að ofan er hið almenna markmið PRIIPS að fjárfestar geti tekið upplýstar ákvarðanir. Enginn fagaðili sem stýrir svona sjóði myndi fjárfesta í undirliggjandi sjóði án þess að skoða hann gagnvart viðmiðunarvísitölu. Hvers vegna ætti hinn almenni fjárfestir að sætta sig við eitthvað minna?

Höfundur er fjármálaráðgjafi.


Tengdar fréttir

Vangu­ard og Vangu­ard áhrifin

Vonandi fara Vanguard áhrifin að hafa einhver áhrif hér á landi en það gerist ekki á meðan reglur eru hamlandi fyrir almenna fjárfesta hérlendis að fjárfesta í sjóðum eins og Vanguard. Slíkar hamlanir eru hagfelldar fyrir íslensku fjármálafyrirtækin en ekki almenna fjárfesta.






×