Sport

Dallas Cowboys er enn verð­mætasta íþróttalið heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það þekkja flestir stjörnuna á hjálmi Dallas Cowboys en þetta NFL-félag er búið að vera verðmætasta íþróttafélag heims í næstum því heilan áratug
Það þekkja flestir stjörnuna á hjálmi Dallas Cowboys en þetta NFL-félag er búið að vera verðmætasta íþróttafélag heims í næstum því heilan áratug Getty/ Stacy Revere

Dallas Cowboys hefur haldið stöðu sinni sem verðmætasta íþróttalið heims og trónir á toppi árlegs lista Forbes sem birtur var í gær og NFL-liðin eru afar áberandi á listanum.

Cowboys hefur verið efsta félagið á listanum frá árinu 2016 þegar liðið tók fram úr spænska knattspyrnufélaginu Real Madrid og var metið á þrettán milljarða dala (1641 milljarð króna) sem er 29% aukning frá síðasta ári.

Golden State Warriors úr NBA-deildinni í körfubolta var í öðru sæti, metið á ellefu milljarða dala (1389 milljarða króna), og á eftir fylgdu NFL-liðin Los Angeles Rams (10,5 milljarðar dala) og New York Giants (10,1 milljarður dala), en annað NBA-lið, Los Angeles Lakers (10 milljarðar dala), er síðasta félagið inni á topp fimm listanum.

Bara fjögur fótboltafélög

Aðeins fjögur knattspyrnufélög; Real Madrid, Manchester United, Barcelona og Liverpool, eru meðal fimmtíu verðmætustu íþróttaliða heims því Manchester City, Bayern München og Paris St-Germain duttu út eftir að hafa verið á listanum árið 2024.

United var metið á 6,6 milljarða dala og deildi 24. sætinu með NFL-liðinu Tampa Bay Buccaneers, á meðan keppinautar þeirra í ensku úrvalsdeildinni, Liverpool, féllu úr 27. sæti árið 2024 niður í 48. sæti með verðmat upp á 5,4 milljarða dala.

Spænsku risarnir í Real Madrid (6,75 milljarðar dala) eru í 20. sæti, á meðan ríkjandi Spánarmeistarar Barcelona (5,65 milljarðar dala) eru í 42. sæti.

30 af 32 liðum NFL-deildarinnar

Alls eru 30 af 32 liðum NFL-deildarinnar meðal fimmtíu verðmætustu liðanna, þar á eftir koma tólf lið úr NBA-deildinni og tvö lið hvort frá Major League Baseball, Formúlu 1, La Liga og ensku úrvalsdeildinni.

New York Yankees (8,2 milljarðar dala) er í 10. sæti sem verðmætasta liðið í MLB, á meðan Formúlu 1-lið Ferrari (6,5 milljarðar dala) er í 26. sæti og Mercedes (6 milljarðar dala) í 34. sæti.

Að sögn Forbes eru þessi fimmtíu lið metin á meira en 353 milljarða dala (meira en 44 þúsund milljarða króna), sem er 22% aukning frá 2024 og meira en tvöföldun frá því fyrir fjórum árum. Viðskiptatímaritið rekur þessar hækkandi tölur til mikillar aukningar á tekjum af fjölmiðlaréttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×