Sport

Stjörnuútherji Steelers sló til á­horf­enda í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DK Metcalf lét áhorfanda heldur betur fara í taugarnar á sér í leik Pittsburgh Steelers og Detroit Lions í Detroit í gær.
DK Metcalf lét áhorfanda heldur betur fara í taugarnar á sér í leik Pittsburgh Steelers og Detroit Lions í Detroit í gær. @@NFLonCBS

DK Metcalf, stjörnuútherji Pittsburgh Steelers, kom sér í vandræði utan vallar í miðjum leik í NFL-deildinni í gær.

Metcalf sló þá til stuðningsmanns sem hékk yfir handriði á Ford Field í öðrum leikhluta leiks gegn Detroit Lions á sunnudag.

Í útsendingu CBS sást Metcalf tala við stuðningsmann með bláa hárkollu en sá hinn sami hékk yfir handriði í fremstu röð á Ford Field-leikvanginum.

Eftir nokkrar sekúndur teygði Metcalf sig upp, sló til stuðningsmannsins með krepptum hægri hnefa og gekk í burtu.

Stuðningsmaðurinn, sem lyfti höndum eftir að Metcalf sló til hans, virtist halda á gulri treyju.

Sóknarleikur Steelers hafði gengið brösuglega fram að þessu og liðið hafði aðeins náð 68 jördum í fjórum sóknarlotum.

Metcalf kom aftur inn á völlinn í næstu sóknarlotu Steelers. Dæmt var á hann leikbrot, sem kallaði fram hávær viðbrögð frá heimamönnum í stuðningsliði Lions.

Metcalf og félagar unnu að lokum 29-24 en útherjinn greip fjóra bolta fyrir 42 jördum. Metcalf skoraði reyndar snertimark en það var dæmt af eftir leikbrot samherja.

Metcalf má búast við stórri sekt frá NFL-deildinni en sleppur væntanlega við leikbann.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×