Innlent

Meðal­laun upp­lýsinga­full­trúa hækkuðu hlut­falls­lega mest

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Meðallaun æðstu stjórnenda í stjórnarráðinu hafa hækkað frá 20-33 prósent síðan 2021. Hlutfallslega mest hjá upplýsingafulltrúum.
Meðallaun æðstu stjórnenda í stjórnarráðinu hafa hækkað frá 20-33 prósent síðan 2021. Hlutfallslega mest hjá upplýsingafulltrúum. Vísir/Vilhelm

Meðallaun stjórnenda í stjórnarráðinu síðustu fimm ár hafa hækkað mest hjá upplýsingafulltrúum þar eða um þriðjung. Mesta hækkun hjá öðrum stjórnendum á tímabilinu er um fjórðung. Meðallaun ráðuneytisstjóra hafa hækkað um rúmlega 470 þúsund krónur á tímabilinu. 

Almennt hefur verið rætt um að launaskrið hafi einkennt vinnumarkaðinn síðustu misseri. Í Stjórnarráðinu hafa laun hækkað talsvert á síðustu fimm ár.

Þannig hafa meðallaun upplýsingafulltrúa í stjórnarráðinu hækkað hlutfallslega mest þar frá árinu 2021 eða um þriðjung sem samsvarar um þrjú hundruð þúsund króna hækkun á mánaðalaunum á tímabilinu og nema þau nú um einni komma tveimur milljónum króna á mánuði. Til samanburðar er hægt að nefna að meðallaun blaðamanna með 11-15 ára  starfsreynslu voru um 735 þúsund á mánuði þegar það var tekið saman árið 2022 hjá Blaðamannafélaginu. 

Meðallaun í Stjórnarráðinu síðustu fimm ár. Hlutfallslega hafa laun upplýsingafulltrúa hækkað mest á tímabilinu en ráðuneytisstjórar hafa fengið mestu launahækkunina í krónum eða um 470 þúsund krónur. (Fjármálaráðuneytið).Vísir

Aðstoðarmenn og skrifstofustjórar með sambærileg laun

Meðallaun annarra stjórnenda í Stjórnarráðinu hækka nokkuð minna en næst á eftir upplýsingafultrúum hækka meðallaun sérfræðinga næstmest eða um 25 prósent á tímabilinu og nema nú um ríflega ellefu hundruð þúsund krónum á mánuði.

Þar á eftir koma ráðuneytisstjórar en meðallaun þeirra hafa hækkað um 470 þúsund krónur á mánuði á tímabilinu sem jafngildir ríflega tuttugu og þriggja prósenta hækkun frá árinu 2021. Meðallaun þeirra eru nú tæplega tvær komma fimm milljónir á mánuði.

Aðstoðarmenn ráðherra og skrifstofustjórar stjórnarráðsins eru með næstum jafnhá laun eða um 1,8 króna á mánuði og hækka um fimmtung á tímabilinu.

Tekjuhæsti forstöðumaðurinn með 3,4 milljónir

Heildarlaun forstöðumanna hjá ríkisstofnunum hafa hækkað um 26 prósent frá árinu 2021. Alls starfa um 120 hundrað forstöðumenn hjá  ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum. Meðal þeirra eru rektorar og skólastjórar, Seðlabankastjóri, forstjóri Landspítalans og heilbrigðisstofnana og safnstjórar ríkissafna. 

Algengast er að heildarlaun forstöðumanna séu frá tæplega 1,7 milljónum króna upp í ríflega 2,2 milljónir króna.

Hægt er að sjá skiptingu á launaflokka á vef stjórnarráðsins. Stjórnarráðið

Tæplega þriðjungur forstöðumanna hjá ríkinu er í launaflokki 060 sem samsvarar  ríflega 1,6 milljón króna í heildarlaun á mánuði. Fimmtán prósent þeirra eru í launaflokk 070, sjá töflu. Þá er fjórðungur forstöðumanna með frá tæplega tveimur upp í 2,2 milljónir. Einn forstöðumaður er með 3,4 milljónir króna á mánuði.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×