Skoðun

Mikil­vægi björgunar­sveitanna

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Við erum einstaklega lánsöm hér á landi að njóta öflugra björgunarsveita um land allt. Björgunarsveitirnar eru bornar uppi af sjálfboðaliðum og með stuðningi almennings, fyrirtækja og hins opinbera. Ég sé ekki hvernig samfélagið myndi standa að jafn öflugum neyðaraðgerðarflota og við búum yfir án þeirra. Því er sérstaklega mikilvægt að við stöndum vel við bakið á björgunarsveitunum til dæmis með því að vera bakverðir, kaupa neyðarkallinn og núna um áramótin að kaupa flugelda, rótarskot eða hreinlega með beinum fjárstuðningi, til stuðnings björgunarsveitunum um land allt.

Á undanförnum árum hefur ríkissjóður veitt fjölmörgum aðilum endurgreiðslu á virðisaukaskatti þegar aðilar hafa farið í viðhaldsvinnu eða byggingu húsnæðis. Sá stuðningur hefur afmarkast við endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem lagður hefur verið á vinnu í þessum tilvikum. Þetta fyrirkomulag hefur verið notað til að auðvelda aðilum að sinna nauðsynlegu viðhaldi og ýtt undir eftirspurn í byggingariðnaði. Í dag er endurgreiðsla hjá einstaklingum 35% virðisaukaskatts sem leggst á vinnu við viðhald fasteigna. Þetta hlutfall hefur farið upp í 100% á ákveðnum tímabilum, yfirleitt í takt við stöðu efnahagslífsins.

Árið 2021, í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar, var gripið til sértækrar endurgreiðslu til allra almannaheillafélaga hér á landi og var samþykkt á Alþingi að endurgreiðsla yrði 100% út árið 2025 en færi þá niður í 60%, líkt og áður af vinnu á verkstað við byggingaframkvæmdir. Fyrri ríkisstjórn sýndi ekki nein merki þess að hafa ætlað að framlengja þennan stuðning umfram það sólarlagsákvæði.

Til þess að tryggja áframhaldandi stuðning við björgunarsveitir landsins ákvað ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hins vegar að grípa til sértæks stuðnings sem myndi dekka þennan stuðning til þeirra á nýju ári. 25 milljónir króna renna því til Landsbjargar með það að markmiði að styðja við áframhaldandi uppbyggingu björgunarmiðstöðva. Félögin sem að baki Landsbjörgu standa geta áfram sótt um endurgreiðslu 60% virðisaukaskatts af vinnu við viðhald eða uppbyggingu fasteigna.

Til þess að setja þetta í stærra samhengi þá er ljóst að með þessu fyrirkomulagi er áætlað að björgunarsveitirnar haldi þessum stuðningi, ígildi fullrar endurgreiðslu virðisaukaskatts, á árinu 2026 miðað við þær áætlanir sem uppi eru.

En hvað þýða 25 milljónir í þessu samhengi?

Sá kostnaður sem hlýst af viðhaldi og byggingu fasteigna er í einföldu máli annars vegar launakostnaður og hins vegar efniskostnaður. Hlutfall þar á milli getur verið mjög breytilegt en ef við gefum okkur að skiptingin sé til helminga þá er ljóst að sá aðili sem fengið hefði þessar 25 milljónir endurgreiddar hefði þurft að fara í framkvæmdir upp á um 520 milljónir króna. Þar af fengi viðkomandi endurgreitt 60% af virðisaukaskattinum og þessar 25 milljónir til viðbótar. Það er þó svo að með þessum 25 milljónum er ekki gerð krafa um útlagðan kostnað á móti.

Er endurgreiðsla virðisaukaskatts á viðhaldi fasteigna besta leiðin til að styrkja björgunarsveitirnar?

Nei, í mínum huga er það alls ekki besta leiðin til að styðja fjárhagslega við starfsemi björgunarsveitanna. Til þess eru fleiri skilvirkari leiðir. Ég tel brýnt að skoða heildstætt með hvaða hætti ríkissjóður Íslands geti stutt við björgunarsveitirnar þannig að samfélagið njóti áfram öflugra sveita um land allt.

Ég ítreka hvatningu mína til landsmanna að styðja við björgunarsveitirnar í þeirra stærstu árlegu fjáröflun sem er flugeldasala. Þá er einnig mikilvægt að minna á að mögulegt er að styðja við þær með beinum fjárstuðningi í stað kaupa á flugeldum.

Höfundur er þingmaður Samfylkingar




Skoðun

Sjá meira


×