Erlent

Rússar opna leik­húsið í Maríupól á ný

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fyrir miðju er leikhúsið sem sprengt var. Á stéttinni fyrir framan er stendur vel læsilega: „ДЕТИ.“ Það þýðir börn á rússnesku.
Fyrir miðju er leikhúsið sem sprengt var. Á stéttinni fyrir framan er stendur vel læsilega: „ДЕТИ.“ Það þýðir börn á rússnesku. Maxar Technologies/AP

Rússar stefna að enduropnun leikhússins í Maríupól fyrir áramót. Leikhúsið er ein táknmynda hryllingsins sem fylgt hefur innrás Rússlands í Úkraínu eins og raunar borgin öll.

Leikhúsið var sprengt í loft upp þegar mörghundruð manns höfðu leitað skjóls í kjallara þess, og málað orðið „BÖRN“ í stórum stöfum á stéttina fyrir framan það.

Fyrrverandi leikari við leikhúsið sem Guardian ræddi við sagði Rússa „dansa á beinum hinna látnu.“

Maríupól fór illa úr grimmri orrustu og þeim stórskotaliðsárásum, sprengjuvarpi og drónaflugi sem slíkum fylgir í upphafi innrásar Rússlands inn í Úkraínu. Síðan hafa rússnesk stjórnvöld varið talsverðum fjármunum í að endurreisa borgina úr rústum sínum, í viðleitni til að reisa eins konar fyrirmyndarborg hinna hernumdu austurhéraða Úkraínu.

Frá því að Rússum tókst að hrekja Úkraínumenn úr borginni hafa hernámsyfirvöld tekið fjölda íbúa fasta og í leiðinni hrakið fjölda íbúa frá heimilum sínum til hernaðarnota eða til að hýsa innflutta Rússa.

Leikhúsið í Mariupol fyrir og eftir sprengjuárásina.Twitter/Dmytro Kuleba

Endurreisn leikhússins er einn mikilvægasti liðurinn í endurreisninni, enda hefur nánast þurft að byggja það algjörlega upp á nýtt. Settur leikhússtjóri, Igor Solonín, hefur tilkynnt um að til standi að opna dyr leikhússins að nýju með uppsetningu á rússnesku ævintýri, Skarlatsrauða blóminu.

Sjálfur hafnar nýr leikhússtjóri og sömuleiðis stjórnvöld í Kreml að leikhúsið, og allir þeir saklausu borgarar sem leituðu í því skjóls, hafi orðið rússneskri sprengju að bráð. Heldur vill hann meina að leikhúsið hafi hrunið vegna sprengingar innan frá, sem sagt að Úkraínumenn sjálfir beri ábyrgð á ódæðinu í tilraun til að afla sér samúðar.

Amnesty International og fjöldi annarra sjálfstæðra rannsókna hafa hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að líklegast hafi verið um vísvitandi árás á borgara að ræða af hálfu rússneska innrásarliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×