Körfubolti

Alba Berlin blómstrar eftir endur­komu Martins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin fóru á kostum í frábærum sigri í kvöld.
Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin fóru á kostum í frábærum sigri í kvöld. Getty/Soeren Stache

Martin Hermannsson er farinn að spila á ný eftir meiðsli sín í landsleik í nóvember og það sést vel á leik liðs hans Alba Berlin.

Alba Berlin endaði tveggja leikja taphrinu í fyrsta leik Martins og í kvöld vann liðið stórsigur á Ludwigsburg.

Alba vann 33 stiga sigur, 80-47, í kvöld en liðið var yfir í hálfleik, 41-22, eftir að hafa unnið annan leikhlutann 30-6.

Martin gaf tóninn með fjórum stigum strax í byrjun en íslenski landsliðsbakvörðurinn endaði leikinn með ellefu stig og fimm stoðsendingar á 22 mínútum. Það var bara Bandaríkjamaðurinn Justin Bean sem skoraði meira en hann í liði Alba.

Martin hitti úr fjórum af tíu skotum utan af velli og þremur af fjórum vítaskotum. Hann passaði vel upp á boltann og tapaði engum bolta í leiknum.

Alba Berlin komst upp í þriðja sætið með þessum öðrum sigri sínum í röð en liðið hefur unnið átt af fyrstu tólf deildarleikjum sínum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×