Skoðun

Vesa­lingarnir í borginni

Daði Freyr Ólafsson skrifar

„Mamma, mér er kalt.“

Það er janúarkvöld í Reykjavík. Barnið situr í fanginu á móður sinni á meðan vindurinn nístir sig inn um gluggana. Ofnarnir eru volgir. Ekki bilaðir – bara volgir. Hitinn hefur verið lækkaður. Það er sparnaður.

„Af hverju er ekki hlýtt eins og áður?“

Hún svarar ekki strax. Hún veit að þetta snýst ekki bara um hitann.

„Því borgin hækkaði hitaveitureikninginn enn einu sinni, strákurinn minn.“

Hún segir þetta lágt.

Í sumum ríkjum er gagnrýni þögguð niður með ótta. Í öðrum með valdi. Í Reykjavík gerist það öðruvísi. Hún er send í ferli, nefndir og íbúahópa. Hún leysist upp. Ekki vegna þess að hún sé röng, heldur vegna þess að kerfið hefur litla hvata til að bregðast við.

Menn hverfa ekki. Þeir aðlagast. Læra að tala varlega. Læra að búast ekki við svari. Það er ekki einræði. En það er ekki heilbrigt heldur.

Strákurinn lærir snemma að flestir staðir eru ekki öruggir í borginni. Ekki á biðstöðinni í Mjódd. Ekki í mygluðum grunnskólunum. Ekki á gangstéttunum sem eru sprungnar og afi hans stórslasaði sig á um daginn. Ekki á bílastæðinu við íþróttaheimilið þar sem enginn sér börnin fyrr en of seint. Þetta er daglegt líf.

Og samt heyrist alltaf sama svarið: verið þolinmóð.

Borgarlínan mun redda þessu.

Einn daginn.

Seinna.

Borgarlínan er minnisvarði hugmyndafræði sem er teiknuð í bleikum skýrslum. Þar er ekkert of dýrt og ekkert of flókið. Götur má færa, akreinar taka og borginni umbreyta. Fjölskyldur eiga bara að laga sig að framtíðarsýn sem hentar fáum. Samráð er til málamynda. Val er ekki í boði. Ekki einu sinni jarðgöng.

Strákurinn getur hlakkað til að ferðast í Borgarlínunni í framtíðinni fram hjá öðrum minnisvarða: græna skrímslinu. Byggingu sem átti að verða nokkrar lágreistar einingar með þjónustu fyrir hverfið, en varð að iðnaðarlegu tákni um vald sem lætur páfagaukana slá hljóða. Hlustun í orði, ekki á borði. Í Reykjavík verður þétting að ofurþéttingu. Kennarar berjast við kerfi sem lofar fjölbreytni en tryggir ekki börnum grundvallarmannréttindi: íslenskuna og öryggið.

Og samt, þegar viljinn er til staðar.

Þegar um er að ræða seli.

Þrjá seli.

Þá er forgangsröðun breytt. Þá er fjármagn flutt. Þá eru ákvarðanir teknar hratt. Þá skiptir ímynd máli. Borgarstjóri hrósar sjálfum sér með grænni skóflu fyrir „umbreytingu“ húsnæðis í leikskóla sem heldur ekki uppi eigin þaki og hefur kostað borgina milljarða.

Á sama tíma slasast börn í umferðinni við nærliggjandi gatnamót. Öryggisúrbætur bíða. Málið flakkar milli sviða, nefnda og ábyrgðarleysis.

Selir 1 – Börn 0.

Þetta eru vesalingarnir í borginni. Ekki í skáldsögu Victors Hugo, heldur í Reykjavík 2025 – höfuðborg Íslands. Fólk sem borgar reikningana, bíður þolinmótt, sendir börnin sín í myglaða og ofsetna skóla og er beðið um að sýna skilning – og þolinmæði.

„Mamma, mig langar að flytja.“

Hún svarar ekki. Hún veit af hverju.

Höfundur er verkfræðingur og í stjórn hverfafélags Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×