Declan Rice var hetjan þegar Arsenal náði sex stiga for­skoti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Declan Rice fagnar hér öðru marka sinna í kvöld í 3-2 sigri Arsenal á Bournemouth.
Declan Rice fagnar hér öðru marka sinna í kvöld í 3-2 sigri Arsenal á Bournemouth. Getty/Richard Heathcote

Arsenal sótti þrjú stig á suðurströndina í ensku úrvalsdeildinni í dag þrátt fyrir martraðarbyrjun á móti Bournemouth.

Arsenal vann leikinn 3-2 og er þar með komið með sex stiga forskot á toppnum en Manchester City getur reyndar minnkað það í fjögur stig á morgun.

Declan Rice missti af síðasta leik vegna meiðsla en var heldur betur mættur aftur í slaginn í kvöld.

Rice skoraði tvívegis með sautján mínútna millibili í seinni hálfleiknum og kom Arsenal þá í 3-1.

Bournemouth minnkaði muninn fimm mínútum síðar og það var því spenna í leiknum allt til leiksloka.

Gabriel var að koma aftur inn í byrjunarliðið hjá Arsenal eftir meiðsli og hann var mikið í sviðsljósinu í upphafi leiks.

Fyrst gaf hann Bournemouth mark á silfurfati með hryllilegri sendingu beint á Evanilson sem þakkaði fyrir sig og kom heimamönnum í 1-0 á 10. mínútu.

Það tók franska miðvörðinn þó bara sex mínútur að bæta fyrir mistökin því hann jafnaði metin á 16. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti Gabriel Martinelli.

Bournemouth pressaði Arsenal og lét toppliðið heldur betur hafa fyrir hlutunum, sérstaklega í fyrri hálfleiknum.

Þannig var staðan þar til að Rice kom Arsenal yfir í 2-1 á 54. mínútu eftir sendingu frá Martin Ödegaard en Norðmaðurinn átti líka mikinn þátt í hinu marki Rice á 71. mínútu sem enski miðjumaðurinn skoraði eftir sendingu frá varamanninum Bukayo Saka.

Þá héldu flestir að þetta væri komið en varamaðurinn Eli Junior Kroupi minnkaði muninn í 3-2 með frábæru skoti aðeins sex mínútum síðar.

Arsenal náði að stýra mikilvægum sigri í höfn og nú er pressan á Manchester City í stórleiknum á móti Chelsea á morgun.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira