Erlent

Reyna að koma sex­tán skipum gegnum her­kví

Samúel Karl Ólason skrifar
Olíuflutningaskipið Evana við bryggju í Venesúela í lok desember. Að minnsta kosti sextán slíkum skipum virðist hafa verið siglt úr höfn í Venesúela á undanförnum dögum. Svo virðist sem áhafnir þeirra vilji komast gegnum herkví Bandaríkjamanna.
Olíuflutningaskipið Evana við bryggju í Venesúela í lok desember. Að minnsta kosti sextán slíkum skipum virðist hafa verið siglt úr höfn í Venesúela á undanförnum dögum. Svo virðist sem áhafnir þeirra vilji komast gegnum herkví Bandaríkjamanna. AP/Matias Delacroix

Áhafnir að minnsta kosti sextán olíuflutningaskipa virðast vera að reyna að komast gegnum herkví Bandaríkjanna um Venesúela. Slökkt hefur verið á sendum skipanna eða raunverulegar staðsetningar þeirra huldar á síðustu tveimur dögum en þar áður höfðu skipin verið við bryggju í Venesúela til lengri tíma.

Í einhverjum tilfellum hefur skipunum verið siglt úr höfn án leyfis frá starfandi ríkisstjórn Venesúela eða forsvarsmönnum ríkisrekins olíufyrirtækis landsins, samkvæmt frétt New York Times.

Tólf skip til viðbótar eru ekki lengur þar sem þau voru og virðist sem slökkt hafi verið á staðsetningartækjum þeirra. Fimmtán af skipunum sextán hafa verið beitt refsiaðgerðum af Bandaríkjamönnum fyrir að hafa verið notuð til að flytja olíu frá Íran og Rússlandi, gegn refsiaðgerðum Bandaríkjanna.

Vilja nota herkví til að stjórna Venesúela

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur eins og frægt er lýst því yfir að olíuflutningaskip frá Venesúela verði stöðvuð. Frá því um miðjan desember hafa Bandaríkjamenn stöðvað og lagt hald á þrjú skip frá Venesúela.

Marco Rubio, utanríkisráðherra, sagði svo í gær að herkvíin væri sú umfangsmesta í nútímasögunni og að hún hefði í för með sér að ríkisstjórn Venesúela gæti ekki aflað tekna.

Rubio gaf til kynna í gær að ekki stæði til að ríkisstjórn Trump myndi taka beina stjórn á Venesúela. Þess í stað yrði herkvíin notuð til að þrýsta á ráðamenn þar til að gera þær breytingar sem Bandaríkjamenn vilja.

Ein af kröfum Bandaríkjamanna snýst um að bandarískum olíufyrirtækjum verði veittur aðgangur að olíulindum í Venesúela. Önnur snýr að því að stjórnvöld Venesúela láti af samstarfi með Íran, Kúbu, Kína og Rússlandi.

Trump og ráðamenn hans hafa gefið til kynna að frekari árásir komi til greina í Venesúela, verði kröfum þeirra ekki fylgt eftir.

Wall Street Journal hefur eftir embættismönnum í Hvíta húsinu að verið sé að fylgja eftir nýrri og umdeildri þjóðaröryggisáætlun Bandaríkjanna. Þar er kallað eftir yfirráðum Bandaríkjanna í Norður- og Suður-Ameríku. Trump sjálfur sló á svipaða strengi um helgina.

„Við viljum umkringja okkur góðum nágrönnum. Við viljum umkringja okkur stöðugleika. Við viljum umkringja okkur orku.“

Tengdar fréttir

Dýpra samtal og samvinna við Evrópusambandið „lykilbreyta“

„Sundurlyndi, yfirlýsingagleði og dauðahald í horfinn heim er ekki það sem við þörfnumst nú um stundir,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í aðsendri grein sem birtist á Vísi nú í morgun. Hún segir sótt að þeim grunngildum sem Ísland byggir utanríkisstefnu sína á og að Íslendingar geti ekki „lokað augunum“ á sama tíma og umheimurinn tekur „sögulegum breytingum“.

„Ísland stendur þétt með vinum sínum“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er meðal þeirra norrænu leiðtoga sem lýst hafa yfir stuðningi við Grænland og Danmörku í framhaldi af enn einum ummælum Bandaríkjaforseta þar sem hann lýsir ósk sinni um að eignast Grænland.

Stjórn Maduro situr sem fastast

Venesúelski herinn hefur viðurkennt valdatöku Delcy Rodríguez sem starfandi forseta landsins. Hún var varaforseti, fjármálaráðherra og olíumálaráðherra í valdatíð Maduro. Því er ekki ljóst hvaða breytingar, ef einhverjar, árás Bandaríkjanna kemur til með að hafa á stjórnarfar í Venesúela. Bandamenn Maduro hafa enn töglin og hagldirnar í stjórn landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×