Skoðun

Þátt­taka í banda­lögum styrkir full­veldið

Pawel Bartoszek skrifar

Heimurinn hefur breyst. Vægi alþjóðalaga og fjölþjóðastofnana hefur veikst og sá heimur sem við blasir er síst af öllu betri fyrir smærri þjóðir.

Ef fullkomin virðing væri borin fyrir alþjóðalögum þyrfti varla nokkur þjóð að huga að eigin vörnum. Smærri ríki þyrftu ekki að óttast að fullveldi þeirra yrði skert með valdi. En í heimi þar sem alþjóðalög eru látin mæta afgangi og fullveldi þjóða er ekki virt, þar eykst óöryggið sannarlega.

Samvinna besta vörnin

En við getum samt alltaf haft áhrif á okkar örlög. Öryggi smærri ríkja hvílir ekki á alþjóðalögum einum saman – og hefur reyndar aldrei gert í tilfelli Íslands. Öll lönd, sem ekki teljast til stórvelda, geta tryggt pólitískt, efnahagslegt og hernaðarlegt öryggi sitt með virkri þátttöku í bandalögum með öðrum þjóðum.

Tvö mikilvægustu pólitísku bandalög vestrænna ríkja eru NATO og Evrópusambandið. Ísland er aðili að NATO, sem er lykilbandalag þjóða báðum megin Atlantshafsins um sameiginlegar varnir. Vera okkar þar snýst þó ekki aðeins um hernaðarlegt öryggi, heldur einnig um aðild að því pólitíska bandalagi líkt-þenkjandi þjóða sem NATO er.

Við eigum heima við borðið

Ísland starfar náið með Evrópusambandinu, bæði í gegnum EES-samninginn og með þátttöku í samstarfi um löggæslu og landamæri. Við erum hins vegar enn utan við það mikilvæga pólitíska bandalag sem sambandið sjálft er.

Þegar mynd birtist af forsætisráðherrum hinna fjögurra Norðurlandanna við kvöldverðarborð, án þess að fulltrúi Íslands væri viðstaddur var það gagnrýnt. Fólki fannst við eiga heima við þetta borð. En á sama hátt má benda á að í hverri viku og í hverjum mánuði hittast leiðtogar Evrópuríkja innan vébanda ESB og ræða sín sameiginlegu hagsmuna- og öryggismál án okkar þátttöku. Það er tímabært að breyta því.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.




Skoðun

Sjá meira


×