Skoðun

Aug­lýst eftir heimili á Facebook

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir skrifar

Týndir kettir, misjafnlega góð ráð um þyngdarstjórnun, fréttir af vinum og fólk að leita að leiguhúsnæði. Þetta er Facebook feedið mitt á venjulegum degi. Ég veit ekki hvað ég get gert varðandi alla týndu kettina en ég staldra hins vegar við allar þessar leiguauglýsingar þó ég eigi ekkert húsnæði til að leigja út.

Um daginn var það auglýsing frá 18 ára stúlku með nokkurra mánaða gamalt barn. Og þar á undan auglýsing frá systrum milli tvítugs og þrítugs með nokkur börn og eitt þeirra fatlað. Fjöldinn allur af einstæðum foreldrum að leita eftir íbúð í hverfinu sínu til að þurfa ekki að rífa börnin úr umhverfi sínu og byrja upp á nýtt annars staðar.

Öruggt húsnæði er forsenda velferðar

Það hefur eitthvað klikkað þegar kornungar mæður og einstæðir foreldrar með fötluð börn þurfa að berskjalda sig á samfélagsmiðli til að reyna að lifa af á grimmum leigumarkaði. Öruggt húsnæði er grundvöllur allrar velferðar. Það veitir fólki stöðugleika, öryggi og rými til að halda utan um líf sitt og takast á við vinnu, nám, og fjölskyldulíf. Án slíks öryggis veikjast allar aðrar stoðir velferðar og ójöfnuður eykst.

Það er verkefni yfirvalda að binda svo um hnútana að fólk hafi aðgengi að öruggu húsnæði. Ekki aðeins með því að slökkva eldana þegar komið er í óefni með sértækum úrræðum – heldur með því að skapa skilyrði fyrir öryggi – líka þegar vextir eru háir og lántökuskilyrði erfið.

Heilbrigður langtímaleigumarkaður

Í dag eru nokkur þúsund manns á biðlista eftir íbúð hjá almennu óhagnaðardrifnu leigufélögunum og því augljóst að fjöldi landsmanna vill búa í öruggu, langtíma leiguhúsnæði. Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi að tryggja lóðir fyrir þessi leigufélög en betur má ef duga skal. Séreignarstefnan, sem réði hér ríkjum lengi og gerir að mestu leyti enn, gerði leigumarkaðinn að skammtímalausn – eins og Facebook auglýsingarnar bera með sér. Nú þarf að tryggja að óhagnaðardrifin leigufélög sem eru að byggja í þágu samfélagsins fái þær lóðir sem þau þurfa og stofnframlög svo að fólk komist af biðlistunum og inn í íbúðir. Örugg langtímaleiga sem stýrist ekki jafn mikið af verðbólgu og vöxtum verður að vera raunverulegur valkostur fyrir fólk til framtíðar.

Uppbygging sem fólk hefur efni á

Þá er mikilvægt að húsnæði sem er byggt til sölu á almennum markaði sé húsnæði sem fólk hefur efni á, vill og þarf. Núverandi ástand kemur verst niður á ungu og tekjulægrafólki og því nauðsynlegt að leggja áherslu á uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Þar þarf Reykjavíkurborg að sýna áræðni og forgangsraða skýrar í skipulagsmálum og eigin stjórnsýslu, svo uppbygging hagkvæms húsnæðis gangi hraðar og markvissar fyrir sig. Húsnæðisöryggi á nefnilega ekki að ráðast af því hvort fólk er með rétta baklandið, með réttar tekjur eða rétt lánshæfi. Það á að vera hluti af grunninnviðum samfélagsins sem tryggt er að allir njóti.

Að eiga öruggt heimili

Þegar ungar mæður, einstæðir foreldrar og fjölskyldur með fötluð börn neyðast til að leita að heimili á Facebook, þá er það ekki einstaklingsbundinn vandi heldur kerfisbundinn brestur sem kallar á ábyrgð og pólitískan vilja til að gera betur.

Þetta er ekki of stór krafa. Þetta er lágmark og verkefni sem sveitarfélög og ríki verða að axla, af festu og ábyrgð, svo fólk þurfi ekki lengur að senda út neyðarkall á samfélagsmiðlum heldur geti búið sér öruggt heimili í samfélagi sem stendur með því.

Höfundur gefur kost á sér í 2. sæti í forvali Samfylkingarinnar til borgarstjórnarkosninga.




Skoðun

Sjá meira


×