Fótbolti

Alonso látinn fara frá Real Madrid

Aron Guðmundsson skrifar
Xabi Alonso er ekki lengur þjálfari Real Madrid
Xabi Alonso er ekki lengur þjálfari Real Madrid

Xabi Alonso hefur verið vikið úr starfi þjálfara spænska stórveldisins Real Madrid í fótbolta. Félagið greinir frá þessu í yfirlýsingu og greindi stuttu seinna frá því að nýr þjálfari hefði verið ráðinn.

Í fyrri yfirlýsingu Real Madrid segir að ákvörðunin um að slíta samstarfinu við Alonso sé sameiginleg en hún er tekin degi eftir að Real Madrid laut í lægra haldi gegn erkifjendum sínum í Barcelona í úrslitaleik spænska ofurbikarsins. 

Stuttu eftir þá yfirlýsingu birtist önnur yfirlýsing á vefsíðu Real Madrid þar sem greint frá því að fyrrverandi liðsfélagi Alonso hjá bæði Real Madrid, Liverpool og spænska landsliðinu, Álvaro Arbeloa, hefði verið ráðinn nýr þjálfari liðsins.

Arbeloa hefur frá því um mitt síðasta ár þjálfað B-lið Real Madrid, Castilla. Fyrir það hafði Arbeloa starfað með yngri liðum Real Madrid frá árinu 2020.

Álvaro Arbeloa er nýr þjálfari Real MadridVisir/Getty

Arbeloa er, líkt og Alonso, fyrrverandi leikmaður Real Madrid. Hann spilaði með liðinu frá árinu 2009 til 2016 og lék 238 leiki fyrir þá hvítklæddu og vann átta titla, þar á meðal Meistaradeild Evrópu í tvígang.

Alls spiluðu Xabi Alonso og Arbeloa saman 262 leiki á sínum atvinnumannaferli samkvæmt tölfræðisíðunni Transfermarkt með annað hvort Liverpool, Real Madrid eða spænska landsliðinu.

Undanfarna mánuði hefur Alonso þótt afar valtur í sessi eftir brösótt gengi en liðið var á sínu fyrsta tímabili undir hans stjórn. 

Spánverjinn, sem var á sínum tíma leikmaður liðsins skilur við Real Madrid í 2.sæti spænsku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið er með fjórum stigum minna en topplið Barcelona. Þá vermir Real Madrid sjöunda sæti Meistaradeildar Evrópu og er í góðum séns á að tryggja sér beint sæti í 16 liða úrslitin.

Alonso tók við stjórnartaumunum hjá Real Madrid fyrir yfirstandandi tímabil eftir að hafa gert góða hluti með lið Bayer Leverkusen í Þýskalandi og skrifaði þá undir þriggja ára samning í Madríd.

Undir stjórn Alonso varð Leverkusen tvöfaldur meistari í Þýskalandi árið 2024 og fór í gegnum deild- og bikar án þess að tapa leik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×