Lífið

Spá Ís­rael sigri marga mánuði fram í tímann

Bjarki Sigurðsson skrifar
Yuval Raphael var framlag Ísraela í Eurovision 2025. Hún endaði í öðru sæti keppninnar, sem kom mörgum á óvart.
Yuval Raphael var framlag Ísraela í Eurovision 2025. Hún endaði í öðru sæti keppninnar, sem kom mörgum á óvart. Getty/Jens Büttner

Veðbankar telja Ísrael sigurstranglegasta ríkið í Eurovision í ár þegar enn eru fjórir mánuðir í keppnin fari fram. Sigursælustu þjóðirnar eru þó skammt undan. Einungis tvö ríki eru búin að tilkynna hvert framlag þeirra er. 

Eurovision hefst 12. maí í Vínarborg í Austurríki, eftir nákvæmlega fjóra mánuði. Sigurvegarinn verður svo krýndur laugardaginn 16. maí, sama dag og sveitarstjórnarkosningar fara fram hér á landi. Ísland tekur ekki þátt í keppninni í ár en framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins telur þátttöku Ísraels í keppninni skyggja á gleðina sem þar á að ríkja, vegna stríðsátaka þeirra fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Allir án framlags

Nú hafa veðbankar birt fyrstu tölur varðandi hver þeir telja sigurstranglegustu ríkin vera. Á toppnum trónir Ísrael með ellefu prósenta líkur. Þar á eftir koma Svíþjóð og Úkraína með átta prósent, Ítalía og Finnland með fimm prósent og svo Lúxemborg, Belgía og Noregur með fjögur prósent.

Ekkert þessara ríkja hefur þó tilkynnt hvert þeirra framlag er. Ísraelar hafa verið nálægt því að vinna síðustu ár en þeir unnu síðast árið 2018 með laginu Toy. Einungis tvö ríki hafa tilkynnt framlag sitt, Albanía og Svartfjallaland. Þau eru talin eiga lítinn sem engan séns á að vinna keppnina. Kýpur hefur tilkynnt hver muni flytja þeirra atriði en lagið sjálft er ekki komið út. 

Bestu þjóðirnar í sögunni

Listinn er að öllum líkindum að miklu leyti byggður á sögulegu gengi þjóða í keppninni. Svíar og Írar hafa unnið keppnina oftast, sjö sinnum. Írar eru ekki með í ár, eins og Ísland, vegna þátttöku Ísraels. 

Næst á eftir með fimm sigra koma Frakkar, Lúxemborgarar, Bretar og Hollendingar. Frakkar unnu síðast árið 1977, Lúxemborg árið 1983 og Bretar 1997. Bretar hafa staðið sig afar illa í keppninni síðustu ár. Að meðaltali hafa þeir lent í átjánda sæti síðan árið 2010. Hollendingar eru ekki með vegna þátttöku Ísraels. 

Ísrael hefur unnið fjórum sinnum og svo eru það Norðmenn, Danir, Ítalir, Úkraínumenn, Svisslendingar og Austurríkismenn með þrjá sigra. 

Ljóst er að listinn mun taka miklum breytingum á næstu mánuðum þegar framlögin fara að hrannast inn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.