Skoðun

Mjódd fram­tíðar - hjarta Breið­holts

Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Mjóddin er miðja borgarinnar og hjarta Breiðholts. Tækifærið er núna til að endurhugsa, endurskapa og endurgera Mjóddina fyrir framtíðarborgina Reykjavík. Það er mikilvægt að ráðast í hönnunarsamkeppni um svæðið, fá inn nýja sýn, nýja þekkingu úr alþjóðlegum borgarþróunarverkefnum og þar með nýjar hugmyndir, nýja hugsun. Úr þessu getur sprottið ný og betri Mjódd. Um leið stefnum við að fyrsta flokks borgarumhverfi sem laðar að sér fjölbreytt mannlíf, þjónustu og atvinnulíf.

Breytum bílastæðum í byggingar

Framtíðar-Mjódd getur borið þétta, blómlega og blandaða byggð með fjölbreyttum íbúðum, verslun og þjónustu á þeim stöðum þar sem núna eru bílastæði, bílastæði og fleiri bílastæði. Í gegnum Mjóddina renna fimm til sex leiðir Borgarlínunnar bráðum í gegn á leið upp í Breiðholt, niður í Vogabyggð eða vestur í bæ. Bætt aðgengi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Uppbygging blandaðrar byggðar í Norður-Mjódd felur í sér fleiri íbúðir og aukna atvinnu- og þjónustustarfsemi, sem aftur bætir jafnvægið milli íbúa og atvinnutækifæra í Breiðholti, sem aftur eflir hverfið, því að það felst mikil lífsgæði í þ-ví að búa og vinna innan sama hverfis.

Blómatorg, inngarðar og bílastæðahús

Setjum bílana í bílastæðahús. Sköpum inngarða með skjóli, leikvöllum og rennandi vatni til leika með. Hönnum umhverfi sem laðar að fjölbreytt mannlíf, þar sem fleira fólk vill hittast, sitja úti þegar veður er gott og drekka kaffi ‒ og fleira. Fleira fólk skapar sterkari rekstrargrundvöll fyrir fjölbreytta þjónustu og atvinnulíf. Fallegt, snyrtilegt og mannvænt borgarumhverfi laðar að sér enn frekara mannlíf og ferðafólk.

Við Breiðhyltingar höfum kallað lengi eftir umbótum á svæðinu. Þess vegna er mikilvægt fyrir Samfylkinguna að eiga öflugan liðsfélaga úr hverfinu, borgarfulltrúa sem getur haldið meiri Mjódd og betri Mjódd á lofti.

Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, býr í Breiðholti, sækir þjónustu í Mjódd og óskar eftir 3. sæti í flokksvali jafnaðarmanna 24. janúar.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×