Sport

Ís­lendingar unnu gull, silfur og brons í Austur­ríki

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sáttir og sælir sigurvegarar Croski Cup.
Sáttir og sælir sigurvegarar Croski Cup.

Karlalandslið Íslands í alpagreinum átti frábæran keppnisdag í Gaal í Austurríki og hreppti öll verðlaunin í stórsvigi.

Gauti Guðmundsson fagnaði sigri en hann kom í mark á tímanum 2:14,10.

Bjarni Þór Hauksson varð annar, einum hundraðshluta úr sekúndu hægari en Gauti.

Matthías Kristinsson varð svo þriðji á tímanum 2:14,25.

Þeir félagar voru ekki eins snöggir í fyrri ferðinni en skíðuðu frábæra seinni ferð og komust á verðlaunapallinn.

Árangurinn í dag var mikilvægur fyrir möguleika þeirra á þátttökurétti á Vetrarólympíuleikunum en 18. janúar er síðasti dagurinn til að skora stig inn á Ólympíulistann.

Á morgun keppa þeir í svigi í Gaal, áður en liðið heldur til Rogla í Slóveníu, þar sem keppt verður í tveimur svigmótum dagana 17. og 18. janúar.

Ísland á nú þegar eitt sæti á leikunum fyrir karlmann og eitt fyrir konu í alpagreinum, og árangurinn í Gaal og Rogla mun skipta sköpum fyrir þá.

Jón Erik Sigurðsson og Tobias Hansen voru einnig á meðal keppenda í Gaal en Jón Erik hafnaði í 7. sæti og Tobias í 17. sæti.

Úrslit mótsins í Gaal í Austurríki má finna hér.

Íslendingarnir unnu gull, silfur og brons.

„Frábært er að sjá hvernig markviss vinna og öflugt prógram landsliðsþjálfaranna, Hauks Þórs Bjarnasonar og Marko Špoljaric, skilar sér í stöðugum og sterkum árangri hjá liðinu“ segir á vef Skíðasambands Íslands.

Landslið Íslands í alpagreinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×