Skoðun

Byggjum á því já­kvæða!

Ólína Þorleifsdóttir skrifar

Ég hef starfað í íslensku skólakerfi í um 30 ár, sem kennari og stjórnandi. Ég get ekki orða bundist yfir þeirri umræðu sem nú er uppi um íslenskt skólakerfi, ekki síst í ljósi ummæla nýskipaðs mennta- og barnamálaráðherra í Kastljósi 13. janúar síðastliðinn. Ég upplifði að þar birtist hroki gagnvart kennurum, skólastjórnendum og börnum sem er að mínu mati bæði ósanngjarn og ógagnlegur.

Ekki fullkomið en langt frá því vonlaust

Ég er með þessum orðum ekki að segja allt sé fullkomið í íslensku skólakerfi. Við þurfum vissulega að líta í eigin barm, efla lestur og styrkja lestrarkennslu. En fullyrðingar um að 40 prósent drengja séu ólæsir samræmast alls ekki minni reynslu. Í mínum skóla sé ég gleði í augum nemenda. Ég sé börn takast á við skapandi og metnaðarfull verkefni á hverjum degi. Ég sé virkt skólastarf þar sem agi, metnaður, skipulag og þátttaka allra eru í fyrirrúmi.

Á þessum árum hef ég líka orðið vitni að miklum framförum í samskiptahæfni barna. Börn í dag eru almennt færari í að ræða tilfinningar sínar, leysa ágreining og sýna hvert öðru skilning en þegar ég hóf kennsluferil minn.

Styrkleikar íslensks skólakerfis

Ég trúi því staðfastlega að raunverulegur árangur náist ekki með því að einblína stöðugt á veikleika. Við byggjum upp með því að rækta styrkleika og styrkleikar íslensks skólakerfis eru margir. Tengsl nemenda og kennara eru yfirleitt góð og flestum börnum líður vel í skólanum. Við eigum vel menntaða og metnaðarfulla kennara og mikið svigrúm til sköpunar, ekki síst í list- og verkgreinum.

Lesefni og stuðningur við íslenskt mál

Það sem ég tel að þurfi að laga er meðal annars framboð á vönduðu og fjölbreyttu lestrarefni. Það er ekki ásættanlegt að börn sem lesa mikið séu á unglingastigi nánast búin með allt efni á íslensku og snúi sér þá alfarið að því að lesa á ensku. Við verðum að standa betur við bakið á íslenskum barnabókahöfundum og leggja metnað í þýðingar á erlendu vönduðu efni fyrir börn og unglinga.

Læsi sem samfélagslegt verkefni

Læsi er ekki eingöngu mál skólanna heldur einnig samfélagslegt verkefni. Við fullorðna fólkið verðum líka að sýna gott fordæmi. Það gengur ekki að skrolla endalaust í símanum og kvarta svo yfir því að börn lesi ekki. Málþroski skiptir lykilmáli í lestrarnámi og ef barn kemur í skólann með rýran orðaforða eða sem er að stórum hluta á ensku þá er ljóst að verkefnið verður erfiðara.

Um lestrarkennsluaðferðir má margt segja en aðferðirnar sjálfar eru ekki aðalvandinn. Flestir kennarar nota hljóðaaðferð að verulegu leyti og hún virkar vel. En ég get þó verið sammála ráðherra um eitt atriði. Við þurfum að mínu mati að endurskoða viðmiðunarstundaskrá Aðalnámskrár. Ég tel eðlilegt að fjölga kennslustundum í 1. til 4. bekk, einfalda námskrána og setja lestur, stærðfræði, hreyfingu, leik og útinám í forgang á þessu aldursstigi.

Virðing, samstarf og raunverulegur árangur

Umræðan um skólakerfið þarf að byggjast á virðingu, samstarfi og raunverulegri þekkingu á skólastarfi. Yfirlýsingar, ýkjur og hroki leiða okkur ekki áfram. Við náum árangri með því að sjá það góða, rækta styrkleikana og byggja á þeim. Þar liggur leiðin að betri skóla fyrir börnin okkar.

Höfundur er skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn.




Skoðun

Sjá meira


×