Erlent

Ræddi við Trump: „Hlakka til að sjá hann“

Agnar Már Másson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mark Rutte, framkvæmdastjóra Nató, munu hittast á ráðstefnu World Economic Forum á morgun.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mark Rutte, framkvæmdastjóra Nató, munu hittast á ráðstefnu World Economic Forum á morgun. AP

Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, segist hafa rætt við Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna „öryggisástandsins“ á Grænlandi. Rutte segist hlakka til að sjá Trump á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar (World Economic Forum) sem hefst á morgun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti varpaði í gær sprengju inn í Atlantshafsbandalagið (NATO) þegar hann boðaði tolla á átta aðildarríki sem studdu ekki innlimunaráform Bandaríkjastjórnar um Grænland, sem heyrir undir dönsku krúnuna.

Leiðtogar þessara átta landa – Bretlands, Þýskalands, Hollands, Frakklands og Norðurlanda að Íslandi undanskildu – brugðust ókvæða við þessum 10 prósenta Grænlandstollum, sem áttu að óbreyttu að hækka í 25 prósent hinn 1. júní ef ekkert breyttist í afstöðu ríkjanna, sem öll eiga það sameiginlegt að hafa sent hermenn á æfingu á Grænlandi. 

Evrópuleiðtogar stilla nú saman strengi um hvernig eigi að svara Bandaríkjamanninum og svo alvarleg þótti staðan að boðað var til aukafundar í ráði Evrópusambandsins í dag, sunnudag. 

Sjá meira: Hótanir Bandaríkjanna vegna Grænlands

„Ræddi við @POTUS [Bandaríkjaforseta] hvað varðar öryggisástandið á Grænlandi og norðurslóðum. Við munum halda áfram að vinna að þessu, og ég hlakka til að sjá hann í Davos síðar í vikunni,“ skrifar Rutte í færslu á X. Með Davos vísar hann til ráðstefnu Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar sem hefst í Davos í Sviss á morgun.

Að líkindum má búast við vandræðalegri stemningu milli Bandaríkjamanna og fulltrúa annarra NATO-ríkja.

Trump hefur ekkert tjáð sig opinberlega um boðaða tolla frá því að hann tilkynnti um þá í gær. 

Útfærsla tollanna liggur ekki fyrir en þar sem Evrópusambandsríki eru í tollabandalagi mun hann líklega þurfa að leggja toll á ESB eins og það leggur ef hann hyggst í raun leggja á þessa Grænlandstolla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×