Erlent

Nóbelsnefndin af­dráttar­laus varðandi fram­sal verð­launa­peninga

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Trump tók vel í gjörning Machado.
Trump tók vel í gjörning Machado. Getty

Nóbelsnefnd friðarverðlaunanna hefur gefið út yfirlýsingu vegna framsals Maríu Corinu Machado verðlaunahafa á medalíu sinni til Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Yfirlýsingin er stutt og afdráttarlaus og segir nefndin að verðlaunin séu verðlaunahafans eins, burtséð frá því hvar peningurinn sé niðurkominn.

María Corina Machado hlaut friðarverðlaunin á síðasta ári fyrir baráttu gegn harðræði Nicolás Maduro í Venesúela. Hún var umtöluð sem líklegasti arftaki Maduro tækist að velta honum af stóli en Donald Trump virtist lítið gefa lítið fyrir leiðtogahæfni hennar eftir að Bandaríkjaher tók Maduro fastan í upphafi árs.

Hún fagnaði aðgerðum Bandaríkjahers ákaft og tilraunir hennar til að skjalla Bandaríkjaforseta keyrðu svo um þverbak þegar hún fór á fund forsetans í Hvíta húsinu og afhenti honum verðlaunapening sinn.

Nóbelsnefndin gaf í dag út yfirlýsingu þar sem hún tekur afstöðu sína til slíks framsals verðlaunapeninga skýrt fram.

„Verðlaunahafi getur hvorki deilt verðlaununum með öðrum né framselt það eftir að tilkynnt hefur verið um hver hlýtur verðlaunin. Friðarverðlaun Nóbels geta sömuleiðis aldrei verið afturkölluð. Ákvörðunin er endanleg og gildir til frambúðar,“ segir nefndin.

Ekki er vísað til Machado með beinum hætti en nefndin segist ekki líta svo á að það sé hlutverk hennar að taka þátt í umræðum um verðlaunahafa eða pólitískum athöfnum þeirra. Tekið er fram að Nóbelsnefndin ábyrgist ekki ummæli eða aðgerðir verðlaunahafa.

Í yfirlýsingunni eru tíunduð nokkur dæmi um það að medalíur hafi verið gefnar í gegnum söguna. Minnisverðast er eflaust þegar norski rithöfundurinn Knut Hamsun gaf Jósef Göbbels, áróðursráðherra Hitlers, nóbelsverðlaunapening sinn árið 1943.

„Göbbels þakkaði fyrir heiðurinn. Ekki er vitað hvar sú medalía er niðurkomin,“ segir nefndin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×