Skoðun

Inn­viðir eru for­senda lífs­gæða ekki tekju­stofn ríkisins

Arnar Freyr Ólafsson skrifar

Í umfjöllun innviðanefndar á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga voru lagðar fram tillögur fyrir ársþingið sem haldið var í október 2025. Meðal annars var fjallað um kalt vatn, fráveitu og hitaveitur. Svo tryggja megi sjálfsögð mannréttindi og aðgang að heitu og köldu vatni ásamt fráveitu þarf að fjárfesta gríðarlega í innviðum til að tryggja afhendingu á vatni og að veita því frá heimilum og fyrirtækjum.

Borholur hlaupa á tugum og hundruðum milljóna króna + VSK

Eitt af lögbundnum hlutverkum sveitarfélaga er að tryggja að íbúar hafi aðgang að þjónustu um aðveitu og fráveitu. Ein fráveituhreinsistöð kostar um 1.000 mkr. + VSK til eða frá eftir stærð og borholur kosta um 30 – 200 mkr. + VSK eftir því hvort um er að ræða heitt eða kalt vatn. Þá er eftir að ræða um lagnir frá holu að miðlunartanki sem kostar einnig verulega fjármuni að viðlögðum virðisaukaskatti.

Hið opinbera skattleggur sjálfsögð mannréttindi

Nú er svo komið að sveitarfélögin standa flest hver frammi fyrir því að hreinsa allt skólp sem veitt er frá þeim. Sveitarstjórnarfólk tekur þessu hlutverki alvarlega og telja sjálfsagt. Til að vel takist til þurfa sveitarfélög að leggja fram verulegar fjárhæðir og grafa ofan í jörð. Íbúar sjá efnahagsreikning sveitarfélagsins bólgna út en verða ekki varir við aukna þjónustu. Vatnið kemur þegar skrúfað er frá krananum og fer jafnharðan og þegar það lendir í niðurfallinu eða sturtað er niður í klósettið. Sem sagt, engar breytingar fyrir notendur. Veitufyrirtækin, fráveita, hitaveitan og vatnsveitan þurfa samt sem áður að tryggja afhendingu á vörunum og tryggja fráveitu með viðunandi hreinsun. Ríkið gerir kröfu um viðunandi gæði á hreinu vatni að og frá.

Samhliða þessu innheimtir ríkið tekjur fyrir það eitt að tryggja sjálfsögð mannréttindi eins og almennt hreinlæti og heilbrigði, sem að lokum fellur á íbúa landsins í formi gjalda. Slík ráðstöfun nær engri átt og ber að afnema hið snarasta Þegar rætt var um innviði fór umræðan um víðan völl og telja sumir að leikskólar, skólar, leikvellir og allt það sem þjónustar íbúa megi skilgreina sem innviði.

Að sjálfsögðu má færa rök fyrir því öllu en skilgreina þarf samt sem áður betur hvaða framkvæmdir um ræðir en vissulega er þarft að fella niður innheimtu á virðisaukaskatti af leik- og grunnskólabyggingum ásamt veituframkvæmdum hvers sem eru á hendi Sveitarfélaga.

Kjörnir fulltrúar sveitarfélaga, óháð því hvar þeir starfa, þurfa að standa þétt saman og knýja á um að þingmenn kjördæmanna leiðrétti þá tímaskekkju sem virðisaukaskattur á innviðaframkvæmdir er. Þetta er hagsmunamál sem varðar alla íbúa og því er nauðsynlegt að halda því rækilega á lofti þegar gengið verður til næstu sveitarstjórnarkosninga.

Ef sveitarfélög eiga að geta mætt lögbundnum skyldum sínum og tryggt áframhaldandi uppbyggingu nauðsynlegra innviða er forsenda þess að dregið verði úr skattheimtu ríkisins á þessum samfélagslega mikilvægu fjárfestingum

Höfundur er bæjarfulltrúi Árborg, stjórnarmaður í Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og formaður innviðanefndar SASS.




Skoðun

Sjá meira


×