Handbolti

„Besta ís­lenska lands­lið sem við höfum mætt“

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland og Ungverjaland hafa mæst oft á síðustu árum. Ungverjar höfðu betur þegar liðin áttust við á EM fyrir tveimur árum.
Ísland og Ungverjaland hafa mæst oft á síðustu árum. Ungverjar höfðu betur þegar liðin áttust við á EM fyrir tveimur árum. EPA/Anna Szilagyi

Spænski þjálfarinn Chema Rodríguez hefur átt góðu gengi að fagna sem landsliðsþjálfari Ungverjalands gegn Íslandi. Hann segist hins vegar aldrei hafa mætt sterkara íslensku liði en nú.

Rodríguez passaði sig á að mæra íslenska liðið fyrir leikinn mikilvæga í Kristianstad í kvöld, á EM karla í handbolta, þar sem tvö afar dýrmæt stig eru í boði fyrir keppnina í milliriðli. Ungverja dreymir ekki síður en Íslendinga um sæti í undanúrslitum og keppnin um að komast þangað hefst formlega í kvöld, klukkan 19:30.

Ungverjar unnu öruggan sigur á Íslendingum á EM fyrir tveimur árum, í Þýskalandi, og höfðu einnig betur þegar liðin mættust í Kristianstad á HM fyrir þremur árum, þegar Ísland glutraði niður góðu forskoti.

„Ég tel að íslenska liðið í ár sé það besta sem við höfum mætt á síðustu sex árum,“ sagði Rodríguez við ungverska miðilinn Nemzeti Sport og sparaði ekki hrósið í garð íslenska liðsins.

Ekki hissa ef Ísland spilaði um verðlaun

„Þeir eru með tvær heimsklassa skyttur í hægri og vinstri skyttustöðunni, áður var aðeins ein í hvorri, og leikstjórnendurnir, Gísli Kristjánsson og Janus Smárason, eru líka framúrskarandi. Hornamennirnir þurfa ekki mikið pláss til að skora og hópurinn er styrktur með leikmönnum sem geta spilað margar stöður, stöðugum varnarmönnum og markvörðum. 

Ísland er ekki aðeins sigurstranglegasta liðið í riðlinum heldur einnig á mótinu og það kæmi mér ekki á óvart ef þeir myndu keppa um verðlaun. Auðvitað er eitt hvað stendur á blaði og annað hvað við sjáum á vellinum – við munum gera okkar besta og ef einhver vill sigra okkur þarf hann að leggja allt í sölurnar,“ sagði Rodríguez.

Spánverjinn Chema Rodriguez er þjálfari Ungverjalands og hefur stýrt liðinu frá árinu 2022.EPA/Adam Warzawa

Hann telur að fjarvera línutröllsins Bence Bánhidi geri að verkum að Íslendingar fari bjartsýnni en ella inn í leikinn. Ísland sé hins vegar mótherji sem Ungverjar þekki betur en Ítalíu og Pólland.

„Við höfðum fleiri myndbandsupptökur og höfum spilað oftar við þá, þannig að við þekkjum þá betur. Allar upplýsingar voru tiltækar. Á hinn bóginn þekkja þeir okkur líka betur en Pólverjar og Ítalir. Þar sem Bence Bánhidi spilar ekki með okkur halda þeir örugglega að þeir eigi góða möguleika á að sigra okkur í þetta skiptið. Við verðum að verjast af hörku, koma í veg fyrir að þeir fái hraðaupphlaup og tapa boltanum sem sjaldnast. Þeir spila á gríðarlegum hraða og ef við leyfum þeim að ná nokkurra marka forskoti verður verkefnið enn erfiðara. Við verðum að halda í við þá allan tímann,“ sagði Rodríguez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×