Handbolti

„Mér líður bara ömur­lega“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elvar Örn er á leið heim í aðgerð.
Elvar Örn er á leið heim í aðgerð. sýn skjáskot

Elvar Örn Jónsson var að vonum niðurlútur á hóteli íslenska landsliðsins þegar fjölmiðlamenn bar að garði í hádeginu.

Elvar Örn fór meiddur af velli í leik Íslands við Ungverjaland í gærkvöld. Eftir skoðun kemur í ljós að hann er með brotið bein í handarbaki og mun því ekki taka frekari þátt á mótinu.

Henry Birgir Gunnarsson tók Elvar tali á liðshótelinu í Kristianstad en landsliðið færir sig yfir til Malmö fyrir milliriðilinn seinni partinn í dag.

„Mér líður bara ömurlega. Ég verð að vera hreinskilinn með það,“ segir Elvar sem svaf ekki mikið í nótt.

„Það var eitthvað minna. Það fóru margar hugsanir í gegnum kollinn og ég er bara ótrúlega svekktur.“

Aðspurður hvort hann hafi strax fundið á sér að meiðslin væru alvarleg þegar þau komu upp segir Elvar:

„Maður heyrir brakið þegar þetta gerist. Þá grunaði mig að það væri eitthvað að. Ég reyndi að halda áfram en það var bara ekkert hægt,“ segir Elvar sem var tekinn í skoðun í hálfleik.

„Það voru bein að hreyfast sem eiga ekki að hreyfast. Þeir voru 99 prósent vissir að þetta væri brotið. Eftir myndatöku fengum við það staðfest,“

Á meðan landsliðið fer yfir til Malmö heldur Elvar heim á leið þar sem hann mun gangast undir aðgerð vegna brotsins á morgun.

„Ég er bara að fara heim núna í aðgerð en hef ekki mikið hugsað út í framhaldið. Við sjáum hvað gerist.“

Frekar verður rætt við Elvar í Sportpakkanum á Sýn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×