Körfubolti

„Of margir sem reyndu að bjarga leiknum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skagastrákarnir hans Óskars Þórs Þorsteinssonar hafa tapað sjö leikjum í röð.
Skagastrákarnir hans Óskars Þórs Þorsteinssonar hafa tapað sjö leikjum í röð. jón gautur

Þrátt fyrir tapið gegn Álftanesi í kvöld, 89-81, var Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari ÍA, sáttur með frammistöðu sinna manna í leiknum.

„Ég hafði trú á okkar mönnum í þessum leik og er ánægður með frammistöðu margra í liðinu í dag. Þeir stigu upp og voru sterkir,“ sagði Óskar við Vísi eftir leikinn.

ÍA byrjaði leikinn vel en síðan hallaði undan fæti og liðið skoraði ekki körfu í tíu mínútur. Þrátt fyrir það voru Skagamenn bara einu stigi undir í hálfleik, 41-40.

„Við stóðum okkur mjög vel í að loka á þeirra aðalmenn. Það var erfitt að greina þá fyrir leik, að vita ekki hvort Justin James yrði með og hvort Nikola [Miscovic] myndi byrja. En ég er almennt mjög sáttur með frammistöðuna og þetta hefði mátt detta aðeins betur fyrir okkur,“ sagði Óskar.

ÍA var í ágætri stöðu undir lok leiks en þá tók Álftanes fram úr.

„Við töpuðum boltanum, gerðum of mikið af mistökum og hentum þessu frá okkur. Justin setti stóran þrist í lokin og allt það en mér fannst þetta meira vera að við fundum ekki takt í sóknarleiknum og of margir sem reyndu að bjarga leiknum, í staðinn fyrir að spila upp á það sem er opið og halda áfram,“ sagði Óskar.

ÍA er áfram á botni deildarinnar en samt er engan bilbug á Óskari að finna.

„Við förum yfir spilamennskuna á myndbandi og lærum það sem við getum lært af þessum leik. Auðvitað er þetta sárt núna og verður það fram að næsta leik,“ sagði Óskar.

Gojko Zudzum lék ekki með ÍA í kvöld, ekki frekar en í síðustu leikjum. Óskar segir að endurkoma hans nálgist.

„Það styttist í hann,“ sagði Óskar en gæti Zudzum spilað næsta leik?

„Vonandi. Ég veit það ekki. Við tökum stöðuna á honum í vikunni og þetta er bara dag frá degi,“ svaraði Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×