Erlent

Viður­kenna loks, fyrir mis­tök, að Úkraínu­menn hafi sökkt Moskvu

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínumenn hafa gefið út frímerki um flaggskipið Moskvu og örlög þess.
Úkraínumenn hafa gefið út frímerki um flaggskipið Moskvu og örlög þess. Getty/STR, NurPhoto

Rússneskur dómstóll hefur dæmt yfirmann í úkraínska hernum fyrir að hafa sökkt beitiskipinu Moskvu, flaggskipi Rússa á Svartahafi, árið 2022. Í úrskurði herdómstóls í borginni Moskvu, sem birtur var á síðu dómstólsins en síðan fjarlægður, var í fyrsta sinn viðurkennt að Úkraínumenn hefðu sökkt skipinu með stýriflaug.

Úrskurðurinn var gegn Andrei Sjúbín, úkraínskum ofursta, sem er ekki í haldi Rússa heldur var hann dæmdur að honum fjarverandi. Hann stýrir einni af stórskotaliðsdeild úkraínska sjóhersins og var dæmdur fyrir „alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi“ fyrir að sökkva Moskvu og fyrir árás á freigátuna Essen aðmírál.

Þó úrskurðurinn hafi verið fjarlægður af netinu var hann varðveittur af blaðamönnum og þar á meðal blaðamönnum rússneska útlagamiðilsins MediaZona.

Hingað til hafa Rússar aldrei viðurkennt að Úkraínumenn hafi sökkt flaggskipinu með eldflaugum. Þess í stað hafa þeir haldið því fram að skipið hafi eingöngu skemmst vegna árásar Úkraínumanna. Þess í stað hafa Rússar sagt að skipið hafi sokkið eftir að eldur kviknaði um borð og teygði anga sína í skotfærageymslu skipsins.

Í úrskurðinum segir þó að þann 13. apríl 2022 hafi tvær eldflaugar hæft Moskvu. Við það hafi eldur kviknað um borð í skipinu og að reynt hafi verið að bjarga skipinu í rúmar sex klukkustundir. Það heppnaðist þó ekki og sökk skipið. Tuttugu úr áhöfn skipsins eru sagðir hafa dáið og átta er enn saknað.

Hingað til hafa Rússar haldið því fram að allri áhöfn skipsins hafi verið bjargað.

Lýsingin í úrskurðinum er í takt við yfirlýsingar Úkraínumanna sem segjast hafa skotið tveimur Neptune-stýriflaugum að skipinu. Þær eru sérstaklega hannaðar til að granda skipum.

Sjá einnig: Telja árás á vopna­verk­smiðju við Kænu­garð hefnd fyrir Moskvu

Í úrskurðinum segir einnig að þegar Moskvu var sökkt hafi áhöfn skipsins verið við mannúðarstörf á hlutlausu hafsvæði og að skipið hafi ekki komið að hinni „sértæku hernaðaraðgerð“ sem Rússar kalla innrásina í Úkraínu. Skipið var þó meðal annars notað til að skjóta eldflaugum að skotmörkum í Úkraínu og kom að upprunalegu hernámi Snákaeyju, þar sem áhöfn skipsins var sagt af úkraínskum hermönnum að „fara í rassgat“, eins og frægt er.

Sjúbín var dæmdur til tíu ára vistar í fanganýlendu í Rússlandi og til að greiða varnarmálaráðuneyti Rússlands rúma 2,2 milljarða rúbla í skaðabætur. Það samsvarar um það bil þremur og hálfum milljarði króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×