Erlent

Grinch siglt til hafnar í Marseille

Samúel Karl Ólason skrifar
Franskur hermaður fyrir utan brú Grinch.
Franskur hermaður fyrir utan brú Grinch. AP/Etat-Major des Armees

Franskir saksóknarar eru að rannsaka olíuflutningaskip sem stöðvað var á Miðjarðarhafinu í gær. Skipið, sem ber nafnið Grinch er talið tilheyra svokölluðum „skuggaflota“ sem notaður er til að komast hjá viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum. Áhlaupið í gær var í fyrsta sinn Evrópuþjóð stöðvar skip á siglingu með þessum hætti og tekur stjórn á því.

Bandaríkjamenn hafa tekið að minnsta kosti sjö slík skip en það hefur í tengslum við herkví þeirra á Venesúela.

Sjá einnig: Frakkar riðu á vaðið og tóku skuggaskip Rússa

Grinch var siglt frá Múrmansk í Rússlandi og telja saksóknarar það hafa verið notað til að flytja rússneska olíu, í trássi við refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Le Parisien segir að verið sé að sigla skipinu til hafnar í Marseille.

Nú er til rannsóknar hvort áhöfn skipsins hafi reynt að hylma yfir hvaðan skipið kom.

Frakkar birtu í dag myndband sem sýnir áhlaupið um borð í Grinch.

Hundruð skipa tilheyra skuggaflotanum en þeim hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Flotinn er talinn hafa flutt um 3,7 milljarða tunna af olíu í fyrra eða um sex til sjö prósent af heildarmarkaði síðasta árs.

Mörg skipanna eru orðin gömul og eru slys nokkuð tíð. Þá eru mörg skipanna einnig ótryggð.

Samkvæmt alþjóðasamþykktum um skipaflutninga eiga skip að vera skráð í tilteknum ríkjum og bera fána þeirra. Skip eru þá bundin reglum og lögum þeirra ríkja þar sem þau eru skráð. Kerfið var þróað til að tryggja að flutningaskip séu tryggð og að komið sé vel fram við áhafnarmeðlimi.

Svokölluð skuggaskip notast oft við fána fátækra smáríkja og í mörgum tilfellum í skiptum fyrir greiðslur til þessara ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×