Handbolti

Á­nægðir með stælana í Hauki: „Sagði bara fokkaðu þér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson tók vel á Albin Lagergren sem var allt í öllu að búa eitthvað til í sænska sóknarleiknum. Haukur lét reynsluboltann líka heyra það.
Haukur Þrastarson tók vel á Albin Lagergren sem var allt í öllu að búa eitthvað til í sænska sóknarleiknum. Haukur lét reynsluboltann líka heyra það. Vísir/Vilhelm

Haukur Þrastarson átti góða innkomu í íslensku vörnina í stórsigrinum á Svíum í kvöld og hann fékk líka mikið hrós frá sérfræðingunum í Besta sætinu.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Rúnar Kárason, tveir fyrrverandi landsliðsmenn, fóru yfir stórbrotna frammistöðu strákanna okkar gegn Svíum á EM í handbolta með Aroni Guðmundssyni. Átta marka sigur, 35-27, er staðreynd og draumurinn um undanúrslit lifir.

Haukur Þrastarson leysti Janus Daða Smárason af í vörninni í seinni hálfleiknum og var einn af mörgum hetjum íslenska liðsins í leiknum. Hann gerði kannski ekki mikið í sóknarleiknum en hinum megin á vellinum lét hann besta leikmann Svía ekki vaða yfir sig.

Haukur var einn af mörgum svokölluðum aukaleikurum í íslenska landsliðinu sem voru í aðalhlutverki í þessum frábæra sigri.

Nokkrir sem stækka svona hjá honum

„Ég held að það verði nokkrir leikmenn sem stækka hjá honum. Ég held að hann hafi klárlega séð í dag hjá nokkrum leikmönnum að þeir geti spilað og eigi að fá bara að spila meira,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson aðspurður um hvort traust Snorra Steins Guðjónssonar landsliðsþjálfara á sínum leikmönnum hafi breyst eftir þennan sigur.

„Haukur var kannski ekkert eitthvað rosalega áberandi í leiknum en hann gerði þetta fáránlega vel. Við vorum alltaf að skipta honum í vörn og sókn hérna í aðdraganda mótsins og í mótunum hingað til,“ sagði Ásgeir en nú lét Haukur til sín taka í varnarleiknum.

„Mér fannst þetta frábært, þessar tuttugu mínútur sem hann spilaði í vörninni. Þeirra hættulegasti sóknarmaður á þeim tíma var [Albin] Lagergren. Hann var bara með attitút og stæla við hann. Honum var drullusama um þann gæja,“ sagði Ásgeir.

Ánægður með stælana í honum

„Ég var rosalega ánægður með stælana í honum,“ skaut Rúnar Kárason inn í.

„Hann var að slá hann og var bara hundleiðinlegur. Ég dýrkaði það. Haukur hefur ekki átt neitt mjög auðvelt undanfarnar vikur. Að fá þetta frá honum, mér fannst þetta stórbrotið hjá honum,“ sagði Ásgeir.

„Taka svona gæja eins og Lagergren sem var búinn að vera potturinn og pannan í þeirra leik, vera að pakka honum saman og þegar hann pakkar honum saman í tíunda skiptið þá segir hann líka bara: „Fokkaðu þér.“ Pælið í hvað þar tekur, það brýtur þig,“ sagði Rúnar.

„Þetta er svo mikið KO“

„Hann dúndraði í bringuna á honum og þegar hann var með einhverja stæla þá sagði hann bara, því maður sá það í útsendingunni: Heyrðu, fokkaðu þér,“ sagði Ásgeir.

„Þetta er svo mikið KO [rothögg],“ sagði Rúnar.

Það má heyra þá hrósa meira Hauki sem og að gera upp allan leikinn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×