Erlent

Leita að líkams­leifum síðasta gíslsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikil neyð ríkir enn á Gasa og Rafah hliðið er eina leiðin inn og út af svæðinu.
Mikil neyð ríkir enn á Gasa og Rafah hliðið er eina leiðin inn og út af svæðinu. Getty/Anadolu/Saeed M. M. T. Jaras

Yfirvöld í Ísrael hafa greint frá því að umfangsmiklar aðgerðir standi yfir á Gasa sem snúa að því að freista þess að finna líkamsleifar lögreglumannsins Ran Gvili. Hann er eini gíslinn sem Hamas-samtökin tóku þann 7. október 2023 sem hefur ekki verið skilað.

Ísraelsmenn segja að landamærahliðið í Rafah, milli Gasa og Egyptalands, verði opnað þegar aðgerðunum er lokið. Opnun landamæranna var liður í fyrsta fasa vopnahlésins á milli Ísrael og Hamas en hún var skilyrt því að allir lifandi gíslar yrðu látnir lausir og líkamsleifum látinna gísla skilað.

Í yfirlýsingu frá skrifstofu forsætisráðherrans Benjamin Netanyahu segir að unnið sé að því að fylgja eftir öllum upplýsingum um það hvar lík Gvili sé mögulega að finna. Landamærin verði ekki opnuð fyrr að því loknu.

Ísraelsher hefur sagt að leit standi meðal annars yfir í grafreit í norðurhluta Gasa. Þá hefur verið haft eftir heimildarmanni að Gvili kunni að hafa verið jarðsettur í Shuja’iya-Daraj Tuffah og að rabbínar og meinatæknar séu á vettvangi ásamt leitarmönnum.

Fjölskylda Gvili hefur þrýst á Netanyahu um að hefja ekki annan fasa vopnahlésins fyrr en líkamsleifar lögreglumannsins hafa skilað sér en Bandaríkjamenn hafa þegar lýst því yfir að fyrsta fasa sé lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×