Skoðun

Farsismi Trumps

Sveinn Ólafsson skrifar

Ég skrifaði grein á þessum vettvangi í mars síðastliðnum um erindi Donalds Trump og möguleg svör Evrópu við stjórn hans (Trump kemur ekki á óvart, en Evrópa getur það). Þar fór ég yfir fyrirsjáanleg atriði í stjórnsýslu Trumps sem hafa komið á daginn. Hann er nefnilega alls ekki óútreiknanlegur, þó hann reyni að láta þannig. Eitt sem hann hefur ástundað og er farið yfir í greininni, er að slá úr og í um risastór málefni, og því meira sem málefnin eru stærri. Hann vill nefnilega vera álitinn óútreiknanlegur. Það er hluti af barnslegri sýn hans á samningatækni og svo er það þægilegt fyrir bráðum áttræðan mann þegar hann slær úr og í vegna þess að hann man ekki betur. Til þess þarf hann oft að tala í mótsögnum. Oft endar þetta í farsa. Þá er þetta orðinn svo stór hluti af stefnu hans, að það mætti kalla þetta farsisma Trumps (e. farcism).

Það er ekki þannig að fólk sem skrifar góða farsa ástundi farsisma. Þau bara skrifa góða farsa. Við horfum á og erum ánægð með skemmtunina. Það er ekki þannig með farsisma Trumps. Hér er ekki verið að segja að öll stefna Trumps sé farsismi. Hún er hluti stefnunnar, notuð til að sveipa hjúpi yfir meginatriði Trumpismans, sem er að gera Trump og fjölskyldu hans að þeirri ríkustu og valdamestu í heiminum. Um leið mun Trump styðja við alla þá sem hann heldur að gagnist í þessum tilgangi, því að í hans huga skiptir þetta takmark öllu máli og allt annað, þar á meðal heill þjóðar hans, er aðeins tæki í þessum tilgangi.

Það skiptir máli að átta sig á þessum þætti í stefnu Trumps. Nú er liðið fyrsta heila ár af seinna kjörtímabili hans, og æ stærra safn af dómsmálum meta ákvarðanir hans ólögmætar. Þegar líður á þetta ár fjölgar bara þeim sem eru ósátt við aðgerðir hans. Fleiri raddir innan hersins munu meta það þannig að ekki megi beita herafla til ólögmætra aðgerða, og alls ekki gegn bandarískum ríkisborgurum. Þar skiptir miklu máli sá óduldi rasismi og vopnuð barátta gegn óvopnuðum borgurum sem ICE stundar núna. Um allt land stundar ICE aðgerðir sem að miklu leyti beinist gegn fólki með annan húðlit en hvítan, og jafnvel gegn frumbyggjum Bandaríkjanna, til að bíta höfuðið af skömminni. Þó að Trump telji sig sjálfan vera ónæman fyrir dómsmálum eftir að hann lýkur forsetatíð sinni, þá gegnir allt öðru máli um öll sem hafa unnið slík ódæði í nafni stjórnarinnar.

Um leið mun andstaðan gegn farsisma Trumps eflast hratt, innan sem utan Bandaríkjanna. Í greininni í mars spáði ég því að fleiri og fleiri myndu finna sér leiðir til að svara þessum yfirgangi og ódulda fjandskap. Það einfaldlega hlaut að gerast og verður sífellt stærri þáttur í viðskiptum og starfsemi um allan heim, innan sem utan Bandaríkjanna. Einhver lítill hluti Íslendinga hefur tekið afstöðu með Trump. Það er afstaða sem verður ekki afsökuð með því að þau hafi ekki vitað hvað var að gerast. Það er afstaða fólks sem hefur fleygt frá sér íslenskum gildum og tileinkað sér gildi yfirgangs og fjandskapar. Það eru grunngildi farsismans og Trump-stefnunnar.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×