Viðskipti innlent

Aug­lýsa eftir fram­boðum viku eftir síðasta stjórnar­kjör

Árni Sæberg skrifar
Ný stjórn tók við í Íslandsbanka á mánudaginn. 
Ný stjórn tók við í Íslandsbanka á mánudaginn.  Vísir/Vilhelm

Tilnefningarnefnd Íslandsbanka hefur auglýst eftir frambjóðendum til stjórnar bankans, aðeins einni viku eftir að ný stjórn bankans var kjörin á hluthafafundi. Ný stjórn verður kjörin á aðalfundi bankans þann 19. mars, sléttum tveimur mánuðum eftir að núverandi stjórn var kjörin.

Í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallar segir að tilnefningarnefndin gegni ráðgefandi hlutverki þegar kemur að kjöri til stjórnar bankans. Á þeim hluthafafundum þar sem kjör stjórnarmanna er á dagskrá leggi nefndin fram rökstuddar tillögur varðandi þá frambjóðendur sem hún telur best til þess fallna að taka sæti í stjórn bankans.

Það gerði nefndin á síðasta hluthafafundi bankans mánudaginn 19. janúar, þar sem þeir sjö sem nefndin hafði tilnefnt voru sjálfkjörnir í stjórn bankans. Heiðar Guðjónsson var einnig sjálfkjörinn stjórnarformaður bankans eftir tilnefningu nefndarinnar.

Fundurinn sá var einmitt haldinn að kröfu hóps hluthafa sem Heiðar leiddi og krafðist stjórnarkjörs. Fundurinn í mars var þegar kominn á dagskrá þegar hópurinn krafðis hluthafafundar og fyrir lá að á honum færi fram stjórnarkjör.

Í tilkynningu bankans nú segir að tilnefninganefndin óski eftir framboðum til stjórnar bankans sem kjörin verði á aðalfundi bankans þann 19. mars 2026. Framboðum skuli skilað til tilnefningarnefndar á sérstöku eyðublaði gegnum vef bankans fyrir klukkan 16:00 þann 4. febrúar 2025. Tilnefningarnefnd muni ekki leggja mat á framboð sem berast eftir þann tíma. Fyrirhugað sé að nefndin birti tillögu sína samhliða boðun aðalfundar eða í síðasta lagi þremur vikum fyrir aðalfund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×