Erlent

„Móðir allra samninga“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leiðtogarnir greindu frá samkomulaginu fyrr í dag. Það verður undirritað síðar á árinu, þegar það hefur ratað í gegnum stjórnkerfi Evrópusambandsins.
Leiðtogarnir greindu frá samkomulaginu fyrr í dag. Það verður undirritað síðar á árinu, þegar það hefur ratað í gegnum stjórnkerfi Evrópusambandsins. AP/Manish Swarup

Nýr fríverslunarsamningur á milli Evrópusambandsins og Indlands er sagður munu leiða til þess að útflutningur aðildarríkjanna til Indlands mun tvöfaldast fyrir árið 2032. Næstum allir tollar verða afnumdir eða lækkaðir verulega, sem mun spara evrópskum fyrirtækjum fjóra milljarða evra.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, segir um að ræða sögulegan áfanga. „Við höfum gengið frá móður allra samninga,“ sagði hún í Delhi í dag. „Við höfum skapað fríverslunarsvæði með tvo milljarða íbúa, sem báðir aðilar munu hagnast af.“

Íbúar Indlands telja 1,4 milljarða og samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verður landið fjórða stærsta hagkerfi jarðar á þessu ári. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, sagði um að ræða stærsta fríverslunarsamning sögunnar.

„Þessi samningur mun skapa 1,4 milljörðum Indverja og milljónum Evrópubúa gríðarleg tækifæri,“ sagði leiðtoginn. Um væri að ræða dásamlegt dæmi um það hvernig tvö stærstu hagkerfi heims gætu unnið saman.

Tollar á bifreiðar frá framleiðendum á borð við Volkswagen, Renault, Mercedes-Benz og BMW fara í tíu prósent úr allt að 110 prósent á fimm árum, fyrir 250 þúsund bifreiðar. Samningur sem Bretar gerðu við Indverja í fyrra hljóðaði upp á 37 þúsund bifreiða kvóta.

Samkvæmt BBC verða ákveðnar vörur undanþegnar samningnum til að standa vörð um innlenda framleiðslu, til að mynda mjólkurvörur, ýmsar kornvörur og ákveðnir ávextir og grænmeti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×