Innlent

Nær altjón í iðnaðar­hús­næði eftir bruna á Húsa­vík

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Töluverður eldur kom upp í húsinu sem er við Haukavík á Húsavík.
Töluverður eldur kom upp í húsinu sem er við Haukavík á Húsavík. aðsend

Mikið tjón varð á iðnaðarhúsnæði við Haukamýri á Húsavík þegar eldur kom upp í húsinu í morgun. Um er að ræða nokkurra fermetra iðnaðarhúsnæði en mestur eldur logaði í og við kaffistofu húsnæðisins. Slökkvistarfi er að mestu lokið en húsið verður áfram vaktað í dag og slökkt í þeim glæðum sem enn kunna að loga.

Þetta staðfestir Henning Þór Aðalmundsson, slökkviliðsstjóri á Húsavík, í samtali við fréttastofu. „Það var töluverður eldur hérna syðst í húsinu, kaffistofumegin,“ segir Henning.

Eldurinn olli töluvert miklu tjóni.aðsend

Hann áætlar að iðnaðarhúsnæðið sé um 300 fermetrar og er mikið skemmt eftir brunann. „Við erum búin að slökkva og erum að búa okkur undir að vakta þetta áfram í dag. Það eru smá glæður hér og þar sem við þurfum að drepa í reglulega,“ segir Henning. „Ég held að þetta sé alveg nánast altjón. En það var bara útaf hita og reyk inni í sal, mesti bruninn var inni á kaffistofunni og þar.“

Ekki hafi aðrar byggingar verið í hættu. „Það slapp alveg til. Þetta stendur eitt og sér hérna og vindáttin var hagstæð og gott veður. Þannig aðstæður voru svo sem góðar til starfa,“ segir Henning.

Frá aðgerðum slökkviliðsins á vettvangi brunans.aðsend
Eldurinn kom upp í iðnaðarhúsnæði á Húsavík.aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×