Innlent

Actavis vill kaupa samheitalyfjahluta Merck KGaA
Actavis ætlar að bjóða í samheitalyfjahluta Merck KGaA. Að sögn Róberts Wessmans, forstjóra Actavis, hefur fjármögnun í verkið þegar verið tryggð með aðkomu þriggja leiðandi alþjóðlegra banka.

Hagnaður Landsbankans umfram væntingar
Hagnaður Landsbankans nam 40,2 milljörðum króna á síðasta ári. Þar af nam hagnaðurinn á fjórða og síðasta fjórðungi liðins árs 14,1 milljarði króna. Þetta er rúmlega tvöfalt meira en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir.

Tekjur af erlendri starfsemi í fyrsta sinn meiri
Liðlega helmingur af tekjum Landsbanka Íslands á síðasta ári stöfuðu af umsvifum bankans í útlöndum en þetta er í fyrsta sinn sem tekjur af erlendri starfsemi eru meiri en af innlendri. Hagnaður bankans á síðasta ári var rúmir fjörtíu milljarðar króna eftir skatta en það er 61% aukning frá fyrra ári.

Fimm lögreglubílar eltu uppi flutningabíl
Fimm lögreglubíla þurfti til þess að elta uppi flutningabíl. Lögregla hóf eftirför á Sæbrautinni í Reykjavík og leikurinn stöðvaðist ekki fyrr en komið var upp í Hafnarfjörð. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort um hraðakstur hafi verið að ræða en ljóst þykir að ökulag bílstjóra flutningabílsins hafi verið hættulegt.
Landssamtök Landeigenda á Íslandi stofnuð
Stofnfundur Landssamtaka Landeigenda á Íslandi var haldin í Sunnusal Hótels Sögu í dag. Salurinn var fullur út úr dyrum og aðstandendur fundarins telja að skráðir stofnfélagar séu hátt í 300 talsins. Guðný Sverrisdóttir, sveitastjóri Grýtubakkahrepps, var kjörin formaður samtakanna.

„Vörnin ekki nógu góð“ segir Alfreð
Alfreð Gíslason segir dómgæsluna í leiknum við Pólverja hafa verið mjög sérstaka á köflum en vill þó ekki kenna dómurunum alfarið um tapið. „Við vorum bara ekki að spila vel í vörninni", segir Alfreð sem einnig hefur nokkrar áhyggjur af meiðslum íslensku leikmannana enda sé breiddin ekki mikil.

Drekkum vatn og verndum tennurnar
Lýðheilsustöð stendur fyrir árlegri tannverndarviku í næstu viku, 29. janúar til 2. febrúar. Slagorð vikunnar verða „Drekkum vatn“ og á það að minna fólk á að vatn er betri svaladrykkur en gosdrykkur. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar á tannheilsu íslenskra ungmenna á aldrinum sex, tólf og fimmtán ára er tannheilsa töluvert vandamál hjá þessum hópi.

Heimamenn eignast Hraðfrystistöð Þórshafnar
Fræ ehf., eignarhaldsfélag í eigu Langanesbyggðar, hefur keypt 30% eignarhlut FSP hf. í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og fer nú með 60% eignarhlut í félaginu en 30% eru í eigu Þórskaupa og 10% í eigu Þórshafnar fjárfestingar.

Baugsmenn sýknaðir
Það urðu tímamót í Baugsmálinu í dag þegar Hæstiréttur sýknaði sakborningana í Baugsmálinu, þau Jón Ásgeir Jóhannesson - systur hans Kristínu og endurskoðendurna Stefán Hilmarsson og Önnu Þórðardóttur. Hinu upprunalega Baugsmáli er því í raun lokið en málið er búið að fara allt í tvo hringi í íslenska dómskerfinu, en málið hófst með húsleit í ágúst 2002.

Fá ríflegan skattafslátt en njóta allra réttinda
Eitt hundrað og fimm hjón sem höfðu lifibrauð sitt einungis af fjármagnstekjum, samkvæmt skattframtali höfðu tæpar níu milljónir á ári að meðaltali í árstekjur, en mikill munur er á þeim tekjulægstu og tekjuhæstu í hópnum. Fjármagnseigendur greiða minna en þriðjung þeirra skatta sem venjulegir launþegar þurfa að borga. Þeir njóta hins vegar sambærilegra réttinda til að fá barnabætur og vaxtabætur.
Utanríkisráðherra fundar í Lichtenstein
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með Ritu Kieber–Beck utanríkisráðherra Liechtenstein. Á fundinum voru sameiginleg hagsmunamál landanna rædd, meðal annars stækkun evrópska efnahagsvæðisins og málefni EFTA og Heimsviðskiptastofnunarinnar. Þá ræddu ráðherrarnir um þróunarmál og möguleika á auknum samskiptum á sviði menningarmála.
Eimskip hækkar afgreiðslugjald um 24 prósent
Gjaldskrá Eimskips fyrir flutninga innanlands hækkar um 4,5 prósent frá 1. febrúar næstkomandi. Landssamband kúabænda bendir á að afgreiðslugjald muni að sama skapi hækka úr 129 krónum í 160 krónur en það jafngildir 24 prósenta hækkun. Það er íþyngjandi þar sem gjaldið er hátt í hlutfalli af heildar flutningskostnaði smávöru, að sögn Landssambands kúabænda.
Kaupþing leiðir kaup á Phase Eight
Kaupþing hefur ásamt hópi fjárfesta keypt bresku tískuvöruverslunina Phase Eight á 51,5 milljónir punda, sem nemur tæpum sjö milljörðum króna. Þetta kemur fram í frétt á vef Times.

Framleiðslan mest hér og verðlagið hátt
Verg landsframleiðsla á mann hér er mest, eða 29 prósent yfir meðaltali 25 ríkja Evrópusambandsins. Verðlag er sömuleiðis hlutfallslega hæst hér á landi. Þetta kemur fram í niðurstöðum alþjóðlegs verðsamanburðar árið 2004 ásamt bráðabirgðaniðurstöðum árið 2005.

Mikil hækkun á fiskverði milli ára
Verð á fersku fiskmeti hefur hækkað mikið frá því í janúar í fyrra, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ, sem gerð var í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í dag miðvikudaginn 24. janúar. Meðalverð flestra tegunda sem skoðaðar voru hefur hækkað um 10-20%, frá því í könnun verðlagseftirlitsins í janúar 2006, en dæmi eru um ríflega 30% verðhækkun milli ára.

Brotist inn í sumarbústað
Lögreglan í Borgarnesi handtók um hádegisbil í dag fjóra einstaklinga um tvítugt sem höfðu brotist inn í sumarbústað í Svínadal í fyrrinótt. Fjórmenningarnir höfðu neytt fíkniefna en lögregla fann á þeim 10 grömm af hassi og eitthvað af alsælu. Fólkið braut rúður til þess að komast inn í sumarbústaðinn og héldu síðan upp á það með partýstandi fram eftir nóttu.

VG segja samstöðu ekki náð um stækkun álbræðslu
Vinstri grænir í Hafnarfirði hafna því að það sé þverpólitísk samstaða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þeir mótmæla því harðlega yfirlýsingu bæjarstjóra Hafnarfjarðar þar að lútandi en þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórnarflokki og stjórn Vinstri grænna.

Harður árekstur á Álftanesvegi
Harður árekstur varð klukkan hálf sjö í kvöld á Álftanesvegi. Um tvo bíla var að ræða og skemmdust báðir töluvert. Engin alvarleg slys urðu þó á fólki.

Hertar mengunarkröfur í nýju deiliskipulagi um álversstækkun
Meirihluti íbúa Hafnarfjarðar er á móti stækkun álversins í Straumsvík samkvæmt nýrri könnun. Línur í þessu máli eru farnar að skýrast. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka í Hafnarfirði standa að nýju deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Almenn atkvæðagreiðsla íbúa bæjarins um deiliskipulagið fer fram þann 31. mars og leggur meirihluti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn til að einfaldur meirihluti þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni ráði úrslitum.
Gengi AMR fór niður
Gengi hlutabréfa í bandaríska flugrekstrarfélaginu AMR Corp., sem FL Group á 5,98 prósenta hlut í, lækkaði í gær um 8,49 prósent á markaði í dag og var lokagengi dagsins 36,7 dalir á hlut. Greiningardeild Kaupþings segir líklegt að lækkunin skýrist af tilkynningu félagsins á hlutafjáraukningu til niðurgreiðslu skulda og skuldbindinga og kaupa á nýjum flugvélum.

Útlán bankanna tóku kipp undir lok árs
Útlán íslensku bankanna námu rúmum 3.808 milljörðum króna á síðasta ári, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands. Lánin stóðu nokkuð í stað frá vordögum liðins ár en hafa vaxið hratt á síðustu mánuðum liðins árs. Skuldir heimilanna gagnvart bankakerfinu jukust um 30 prósent á milli ára. Helsta ástæðan er skuldbreyting húsnæðislána sem aftur minnkaði hlut Íbúðalánasjóðs.
Hvalkjöt í hundana
Birgðir af hvalkjöti hrannast upp í Japan og er svo komið að farið er að nota það í hundamat. Þetta fullyrða Greenpeace-samtökin og segja þar með sannað að enginn grundvöllur sé fyrir hvalveiðum Íslendinga.
Börn í Byrginu
Unglingsstúlkur hafa verið í vistun í Byrginu þrátt fyrir að meðferðarheimilið hafi ekki haft heimild til að vista börn. Byrgið leitaði eftir heimild til barnavistunar hjá Barnaverndarstofu fyrir þremur árum en var hafnað eftir skoðun.

Gengisáhætta erlendra húsnæðislána sáralítil
Gengisáhætta af erlendum húsnæðislánum er sáralítil, segir sjálfstæður fjármálaráðgjafi. Ef fólk þolir upp undir tuttugu prósenta sveiflu í greiðslubyrði af húsnæðislánum eru erlend lán hagstæðasti kosturinn.

Telur þörf á lagabreytingum vegna barnaníðinga
Forstjóri Barnaverndarstofu telur þörf á að breyta lögum svo hægt sé að fylgjast betur með barnaníðingum sem líklegir eru til að brjóta af sér á ný. Lögreglan rannsakar játningar Ágústs Magnússonar í Kompás þar sem hann sagðist hafa framið fleiri brot en hann hefur verið dæmdur fyrir.
SPV veitt heimild til eignar í SP-Fjármögnun
Fjármálaeftirlitið veitti Sparisjóði Vélstjóra heimild á fimmtudag í síðustu viku til þess að fara með allt að 33 prósenta virkan eignarhlut í SP-Fjármögnun hf. samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Hvalkjöt í hundamat
Birgðir af illseljanlegu hvalkjöti hafa hlaðist upp í Japan og hafa aukist um tvö þúsund tonn á tveimur árum. Greenpeace telur að með þessu séu brostin öll rök fyrir hvalveiðum Íslendinga. Benda samtökin á að Japanar séu farnir að nota hvalkjöt í hundamat.

Fyrirtæki undir smásjá Neytendasamtakanna til 1. mars
Dæmi eru um matvörur sem hafa hækkað um þrjátíu og fimm prósent í janúar samkvæmt nýrri verðlagsvakt sem Neytendasamtökin settu upp á heimasíðu sína í gær. Fyrirtæki verða undir smásjá samtakanna segir formaðurinn sem hefur fulla trú á að lækkun virðisaukaskatts fyrsta mars skili sér til fólksins í landinu.
Launavísitalan lækkaði í desember
Launavísitala í desember í fyrra mældist 300,8 stig en það er 0,1 prósentustiga lækkun frá mánuðinum á undan. Lækkunin skýrist af því að áhrifa gætir ekki lengur af 26.000 króna eingreiðslu við endurskoðun kjarasamninga ASÍ og SA á almennum vinnumarkaði sem greidd var í árslok 2005, að sögn Hagstofu Íslands.
Innbrot hluti af grófu einelti
Fjórir þrettán ára drengir í Laugalækjarskóla stálu lyklum af skólabróður sínum og notuðu þá til þess að brjótast inn heima hjá honum. Talið er að þjófnaðurinn sé hluti af grófu einelti.