Fótbolti

Hannes í úrvalsliði 1. umferðar á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes lék einn sinn besta landsleik í gær.
Hannes lék einn sinn besta landsleik í gær. vísir/getty
Hannes Þór Halldórsson átti frábæran leik í marki Íslands þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Portúgal í Saint-Étienne á EM í Frakklandi í gær.

Hannes var öruggur í öllum sínum aðgerðum og varði alls átta skot í leiknum. Enginn markvörður hefur varið fleiri skot á EM til þessa.

Sjá einnig: Santos um markvörslu Hannesar: Nani veit ekki enn hvernig hann varði

Vefsíðan WhoScored.com heldur utan um tölfræði mótsins og gefur leikmönnum einkunn byggða á frammistöðu þeirra í ýmsum tölfræðiþáttum.

Hannes fékk 8,54 í einkunn fyrir frammistöðuna gegn Portúgal hjá WhoScored og var maður leiksins. Kolbeinn Sigþórsson kom næstur með 7,85 en framherjinn öflugi vann hvorki fleiri né færri en 18 skallaeinvígi í leiknum.

Aðeins fimm leikmenn fengu hærri einkunn en Hannes hjá WhoScored í 1. umferðinni en hann er í úrvalsliði umferðarinnar hjá síðunni. Frakkinn frábæri Dimitri Payet er leikmaður 1. umferðarinnar að mati WhoScored en hann skoraði sigurmark gestgjafanna í opnunarleiknum gegn Rúmeníu.

Andriy Pyatov fékk næsthæstu einkunn markvarða í 1. umferðinni (7,75) en hann átti fínan leik þegar Úkraína tapaði 2-0 fyrir heimsmeisturum Þýskalands. Svisslendingurinn Yann Sommer er svo þriðji með 7,72.

Hæstir í einkunnagjöf WhoScored:

1. Dimitri Payet (Frakkland) - 9,59

2. Toni Kroos (Þýskaland) - 9,41

3. Shkodran Mustafi (Þýskaland) - 8,82

4. Luka Modric (Króatía) - 8,72

5. Fabian Schär (Sviss) - 8,60

6. Hannes Þór Halldórsson (Ísland) - 8,54

7. Andrés Iniesta (Spánn) - 8,44

8. Zoltán Gera (Ungverjaland) - 8,44

9. Gareth Bale (Wales) - 8,38

10. Wes Hoolahan (Írland) - 8,27


Tengdar fréttir

Umferð hrundi meðan á leik stóð

Umferðarteljarar Vegagerðarinnar sýna að fáir voru á ferli í borginni í gærkveldi meðan Portúgalir og Íslendingar áttust við i St. Etienne.

Sagan skrifuð í Saint-Étienne

Íslenska karlalandsliðið spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti í gær gegn Portúgal. Í fyrsta leiknum skoraði liðið fyrsta markið og náði í fyrsta stigið. Strákarnir okkar eru komnir aftur eftir hálfs árs runu af slæmum úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×