Innlent

UEFA þekkir ekki milligöngumann Björns Steinbekk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talsmaður UEFA kannast ekki við þann sem Björn Steinbekk sagði vera framkvæmdastjóra miðasölu UEFA og á að hafa útvegað honum miðana umdeildu.
Talsmaður UEFA kannast ekki við þann sem Björn Steinbekk sagði vera framkvæmdastjóra miðasölu UEFA og á að hafa útvegað honum miðana umdeildu. Vísir
Talsmaður UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, kannast ekki við þann aðila sem Björn Steinbekk athafnamaður sagði vera framkvæmdastjóra miðasölu UEFA og að hafi svikið sig um þá miða sem Björn hafði selt Íslendingum á leik Íslands og Frakklands í gær.

Þetta kemur fram á vef RÚV þar sem rætt er við talsmann UEFA. Kannast hann ekki við nafnið Nicole sem kemur fram í tölvupósti sem Björn framvísaði því til sönnunnar að aðili á vegum UEFA hafi selt sér miða.

Sjá einnig: Franska lögreglan rannsakar miðamál Íslendinga en enginn verið handtekinn

Vísir hefur fjallað ítarlega um málið sem nú er til rannsóknar lögreglu en það snýst um að tugir ef ekki á annað hundruð Íslendinga, sem höfðu keypt miða af Birni, voru svikin um þá þegar til kastanna kom sem varð til þess að margir komust ekki á leikinn, sátu á röngum stað eða mættu alltof seint.

Sjá einnig: Tólf Tólfur dreifðar, sárar og svekktar fyrir innan og utan Stade de France

Brýnir talsmaðurinn fyrir almenningi að kaupa aðeins miða af sambandinu í sjálfu, beint og milliliðalaust. Miðar sem ekki séu keyptir á slíkan hátt séu oftar en ekki falsaðir eða ógildir og seldir á okurverði.

Sjá einnig: Björn Steinbekk segist svikinn og ætlar að leita réttar síns

Björn hafnaði því í viðtali við RÚV í morgun að miðarnir sem hann hafi selt hafi verið falsaðir eða fengnir eftir ólöglegum leiðum. Sagðist hann íhuga að höfða málsókn á hendur UEFA vegna málsins.

Rétt er að taka fram að Björn hefur ekki svarað símtölum eða fyrirspurnum fréttastofu og ekki sýnt fram á nein samskipti við Knattspyrnusamband Evrópu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×