Íslenski boltinn

Hannes orðinn leikmaður Vals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes tekur í spaðann á Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals.
Hannes tekur í spaðann á Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals. vísir/vilhelm
Hannes Þór Halldórsson er genginn í raðir Vals. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við Íslandsmeistarana.

Hannes fékk sig lausan undan samningi hjá Qarabag í Aserbaídsjan í síðustu viku og er nú kominn aftur til Íslands. Auk þess að leika með Val mun einnig koma að þjálfun markvarða yngri flokka félagsins.

Hannes lék í þrjú tímabil með KR (2011-13) áður en hann fór út í atvinnumennsku. Hann varð Íslandsmeistari með KR 2011 og 2013 og bikarmeistari 2011 og 2012. Hannes var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins 2011.

Á árunum í atvinnumennsku lék Hannes með Brann, Sandnes Ulf og Bodö/Glimt í Noregi, NEC í Hollandi og Randers í Danmörku.





Valur er fjórða Reykjavíkurfélagið sem Hannes spilar fyrir og það sjötta hér á landi. Hann hóf ferilinn hjá Leikni R., lék svo eitt tímabil með Aftureldingu og eitt með Stjörnunni áður en hann gekk í raðir Fram. Þar var hann í fjögur tímabil en fór svo yfir í KR. Hannes hefur leikið 147 leiki í efstu deild á Íslandi.

Hannes, sem verður 35 ára síðar í mánuðinum, hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins undanfarin ár. Hann hefur leikið 59 landsleiki og lék alla leiki Íslands á EM 2016 og HM 2018.

Anton Ari Einarsson hefur varið mark Vals undanfarin þrjú tímabil. Óvíst er hvar framtíð hans liggur eftir komu Hannesar.

Valur hefur orðið Íslandsmeistari síðustu tvö ár undir stjórn Ólafs Jóhannessonar sem gaf Hannesi sitt fyrsta tækifæri í íslenska landsliðinu.

Valur mætir Víkingi R. í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar 26. apríl.

Hannes með Íslandsmeistarabikarinn, sem Valur hefur unnið tvö ár í röð, í bakgrunni.vísir/vilhelm

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×