Fótbolti

Heimsmeistararnir skoruðu 13 mörk gegn Tælendingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alex Morgan, sem skoraði fimm mörk gegn Tælandi, fagnar með Megan Rapinoe sem skoraði eitt mark.
Alex Morgan, sem skoraði fimm mörk gegn Tælandi, fagnar með Megan Rapinoe sem skoraði eitt mark. vísir/getty
Bandaríkin unnu risasigur á Tælandi í F-riðli heimsmeistaramótsins í Frakklandi í kvöld. Lokatölur 13-0, heimsmeisturunum í vil.

Þetta er stærsti sigur á heimsmeistaramóti frá upphafi. Þýskaland átti gamla metið en þýska liðið vann það argentínska, 11-0, á HM 2007.

Alex Morgan skoraði fimm mörk fyrir bandaríska liðið sem var 3-0 yfir í hálfleik. Hún jafnaði þar með met löndu sinnar, Michelle Akers, sem skoraði fimm mörk í 7-0 sigri á Kínverska Tapei á HM 1991.



Í seinni hálfleiknum opnuðust allar flóðgáttir. Bandaríkin skoruðu fjögur mörk á sex mínútna kafla snemma í seinni hálfleik og á endanum urðu mörkin 13 talsins.

Rose Lavelle og Samantha Mewis skoruðu báðar tvö mörk í leiknum og Lindsey Horan, Megan Rapinoe, Mallory Pugh og Carli Lloyd allar eitt mark. Sú síðastnefnda er næstelst til að skora á HM kvenna frá upphafi, eða 36 ára og 330 daga gömul.

Fyrr í dag vann Svíþjóð 2-0 sigur á Síle í F-riðli. Næsti leikur Bandaríkjanna er gegn Síle í París á sunnudaginn. Sama dag mætir Tæland Svíþjóð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×