Erlent

Kerry heimsækir landsbyggðina

Atkvæði í sveitum og minni bæjum kunna að ráða úrslitum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust. Þar vann George Bush stórsigur fyrir fjórum árum og John Kerry mun leggja höfuðáherslu á að ná til landsbyggðarfólks í kosningabaráttu sinni nú. John Kerry leggur í dag af stað í eina af fjölmörgum heimsóknum sínum til landsbyggðarkjördæma þar sem hann ætlar að sannfæra fólkið um að hann sé einn af þeim og landsbyggðin skipti hann miklu máli.. Verkefni Kerrys gæti átt eftir að reynast erfitt þar sem yfirbragð hans sem frjálslynds yfirstéttarmanns úr austrinu fellur landsbyggðarfólki ekki vel í geð. Kerry mun á næstu vikum snæða „barbeque“-grillmat með fólkinu í Iowa, hlusta á bændur í Bloomer og jafnvel skjóta af byssu í Missisippi. En skoðanir Kerrys á skotvopnum eru að mati repúblíkana einmitt ein af lykilástæðum þess að fólkið í sveitum landsins ætti ekki að kjósa hann. Þessu mótmæla talsmenn Kerrys, sem segja hann vera veiðimann mikinn, þrátt fyrir að hann vilji setja öryggið á oddinn þegar kemur að skotvopnaeign. Þeir telja stöðuna í Írak og slælegt efnahagsástand í Bandaríkjunum gefa kjósendum til sveita ástæðu til að velja Kerry. Repúblíkanar ætla að verja landsbyggðaratkvæðin með kjafti og klóm og í gær fór af stað herferð af þeirra hálfu með yfirskriftinni: „Tíu helstu ástæður þess að John Kerry er rangur kostur fyrir landsbyggðarfólk.“ Ljóst er að George Bush verður að sigra í landsbyggðarkjördæmum ætli hann sér að ná endurkjöri enda eiga demókratar jafnan góða tíð í vændum takist þeim að sækja upp undir helming þessara atkvæða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×