Innlent

Getur ekki sett ný lög um leið

Sigurður Líndal, fyrrverandi lagaprófessor, telur að Alþingi geti ekki sett ný fjölmiðlalög um leið og fyrri lög eru felld úr gildi. Þar með gangi Alþingi lengra en þjóðin og brjóti stjórnarskrána. Allsherjarnefnd kom saman klukkan 9 í morgun og hélt áfram umfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið. Fjórir lögfróðir menn komu fyrir nefndina í morgun, fyrst lagaprófessorarnir Sigurður Líndal og Páll Hreinsson, og klukkan 11, lögmennirnir Ástráður Haraldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson, sem sitja enn á fundi nefndarinnar. Sigurður Líndal er efnislega sammála Eiríki Tómassyni lagaprófessor um að það sé brot á stjórnarskrá ef ný fjölmiðlalög verða sett um leið og hin fyrri verða felld úr gildi. Hann kallar þetta „stjórnlagasniðgöngu“, þ.e. að verið sé að fara í kringum ákvæði stjórnarskrárinnar. Sigurður telur Alþingi geta „fellt lögin úr gildi en ekki annað og meira en það. Við það verður að sitja,“ sagði Sigurður í samtali við fréttamann í morgun. Hann sagði jafnframt að Alþingi gæti vissulega sett lög um fjölmiðla en að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fælu í sér synjun á lögum, væru skilaboð til þingsins um að huga vel að undirbúningi löggjafar og afla sem víðtækastar samstöðu meðal þingmanna um slík lög. Lagaflækjurnar halda áfram fyrir allsherjarnefnd. Eftir hádegið kemur Laganefnd Lögmannafélags Íslands á fund nefndarinnar og síðan lögmennirnir Dögg Pálsdóttir og Hróbjartur Jónatansson. Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigurð Líndal með því að smella á hlekkinn sem fylgir fréttinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×