Innlent

Taki Breta til fyrirmyndar

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, vill að íslenska ríkisstjórnin fari að dæmi Breta, sem hyggjast segja upp meira en hundrað þúsund ríkisstarfsmönnum í hagræðingarskyni. "Þróunin í ríkisrekstrinum er því miður nákvæmlega sú sem við höfum varað við. Útgjöldin aukast stöðugt og fjölmargar stofnanir eru orðnar áskrifendur að aukafjárveitingum," segir Þór. "Eina ráðið við þessum vanda er að marka stefnu um fækkun ríkisstofnana og ríkisstarfsmanna. Breska ríkisstjórnin hefur sett sér markmið um fækkun ríkisstarfsmanna og slíkt verðum við einnig að gera. Íslendingar eru nú í þriðja sæti á meðal OECD ríkja yfir samneyslu á mann og við stefnum á heimsmetið," segir Þór. Hann bendir á að nær engin umræða fari nú fram á vettvangi stjórnmálanna um fækkun stofnana en stöðugt komi fram hugmyndir um nýjar stofnanir. Nú séu 230 ríkisstofnanir hérlendis en 130 í Bretlandi. "Það er alveg ljóst að ef við bíðum með aðgerðir þar til í hreint óefni er komið eru miklu meiri líkur á því að sparnaðaraðgerðir komi niður á þeim sem síst skyldi," segir Þór Sigfússon.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×