Innlent

Misskilningur hjá Ríkisendurskoðun

Fjármálaráðherra sendir Ríkisendurskoðanda í dag skriflegar athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga. Fjármálaráðherra segir misskilnings gæta í skýrslunni. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga eru ráðuneyti og stofnanir ríkisins gagnrýnd harðlega fyrir ónákvæmni í áætlanagerð og fyrir að fara ár eftir ár fram úr heimildum fjárlaga, einsog segir í skýrslunni. Geir H. Haarde fjármálaráðherra segir ýmislegt gagnlegt í skýrslunni en hann gagnrýnir niðurstöður Ríkisendurskoðunar og segir alvarlegan misskilning í vinnubrögðum stofnunarinnar. Til að mynda sé þar blandað saman framsetningu talna á rekstrargrunni og greiðslugrunni sem gefi afar skakka mynd af stöðu ríkisstofnana um áramót. Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi vill ekki svara gagnrýni fjármálaráðherra nema hún komi skriflega. Því hefur fjármálaráðherra sett saman skriflegar athugasemdir og verða þær sendar til Ríkisendurskoðuar í dag. Endanlegt uppgjör ríkisstofnana liggur ekki fyrir fyrr en með ríkisreikningi sem gefinn er út í ágúst eða september. Deila fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda verður varla til lykta leidd fyrr en eftir það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×