Innlent

Davíð frá störfum á næstunni

Við setningu þingfundar rétt í þessu sagði Halldór Blöndal, forseti Alþingis, að Davíð Oddsson forsætisráðherra myndi ekki taka þátt í störfum þingsins á næstunni vegna veikinda. Eins og greint hefur verið frá var Davíð fluttur á Landspítala-háskólasjúkrahús í nótt vegna verkja í kviðarholi og er hann í rannsókn á sjúkrahúsinu, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Að sögn Illuga Gunnarssonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, er ekki vitað hve alvarleg veikindi Davíðs eru né hve lengi má búast við að hann verði á sjúkrahúsi. Þetta hafi borið mjög brátt að og komið starfsfólki í forsætisráðuneytinu mjög á óvart, enda hafi Davíð varla misst úr dag vegna veikinda einsog Illugi orðaði það. Að öðru leyti sagðist hann ekki geta tjáð sig frekar um veikindi forsætisráðherra, enda væri hann í rannsókn og henni einfaldlega ekki lokið. Illugi sagði að forsætisráðuneytið gæfi frá sér frekari upplýsingar um leið og þær lægju fyrir. Ásta Möller, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, mun að líkindum taka sæti Davíðs Oddssonar á þinginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×