Innlent

Harðar umræður á Alþingi

Harðar umræður hafa verið á Alþingi um fjölmiðlalögin í dag. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnarflokkana fyrir það hvernig málið hefur þróast síðustu mánuði og talaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, um sjálfskaparvíti ríkisstjórnarinnar og taldi málið allt komið á byrjunarreit. Því hafnaði Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, því ekkert mál hefði hlotið jafn mikla umræðu undanfarin misseri sem hlyti að nýtast í framhaldinu. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, taldi að það tæki 2-3 ár að vinna nýtt frumvarp um fjölmiðla. Ekki mætti einblína á eignarhaldið heldur yrði samtímis að endurskoða Ríkisútvarpið, tryggja sjálfstæði ritstjórna og fleira. Einar K Guðfinnsson, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, lýsti furðu á því að taka ætti 2-3 ár í að semja nýtt frumvarp. Pétur Blöndal, Sjálfstæðisflokki, sagði að jarðskjálfti hefði skekið þjóðfélagið 2. júní þegar forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Flokksbróðir hans, Einar K. Guðfinnsson, greip það á lofti og sagði skjálftann svo alvarlegan að þar fyrst hefði myndast gjá yfir til þjóðarinnar. Steingrímur J Sigfússon talaði lengi - svo lengi að Birgir Ármannsson, varaforseti þingsins, sagði að hér eftir yrðu þingmenn að stytta ræðutíma sinn. Eftir það hafa þingmenn talað í skeytastíl en Birgir lemur ótt og títt í bjölluna til merkis um að ræðutíminn sé liðinn. Formenn stjórnarflokkanna hafa ekki tekið þátt í þingstörfum, Halldór Ásgrímsson af persónulegum ástæðum og Davíð Oddsson var fluttur á sjúkrahús síðustu nótt með mikla verki í kviðarholi. Óvíst er hve lengi hann verður á sjúkrahúsi en við upphaf þingfundar sagði Halldór Blöndal þingforseti að hann yrði fjarverandi í nokkurn tíma og því tæki Ásta Möller sæti hans. Þá er Geir H. Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, einnig fjarverandi og tók Lára Margrét Ragnarsdóttir sæti hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×