Sport

Nenni ekki að lemja mig í hausinn

Lára Hrund Bjargardóttir var tiltölulega sátt þótt hún hefði verið nokkuð frá sínu besta í lauginni í Aþenu í gær. Lára Hrund tók þátt í 200 metra fjórsundi og kom í mark á tímanum 2:22,00 mínútum en Íslandsmet hennar er 2:20,35 mínútur. „Ég er alveg búinn á því núna,“ sagði Lára Hrund skömmu eftir að hún steig úr lauginni í Aþenu en hún komst ekki áfram. „Þrátt fyrir að mér hafi ekki tekist að slá metið þá er þetta minn næstbesti tími. Engu að síður er þetta svolítið svekkjandi en það þýðir ekki að velta sér upp úr því. Ég er samt ekki óánægð og þetta er tími sem ég sætti mig þannig séð við þótt ég sé pínu svekkt. Ég nenni ekki að lemja mig í hausinn yfir þessu.“ Það var óvenjukalt, eða óvenju lítið heitt, í Aþenu í gær og nokkuð sterkur vindur var þegar Lára Hrund synti. Hafði þessi vindur einhver áhrif á hana? „Ég hugsa ekki. Laugin var að vísu svolítið kaldari en áður en það eru allir að keppa við sömu aðstæður þannig að það er ekki hægt að kvarta yfir því,“ sagði Lára Hrund en hvernig fannst henni sundið ganga hjá sér. Var hún ánægð eða óánægð með einhverja hluta sundsins? „Ég hugsa að sundið hafi allt verið of hægt. Hvert sund fyrir sig. Ég er ekki búinn að tala við þjálfarann þannig að ég veit það ekki alveg en þetta er mín tilfinning svona skömmu eftir sundið.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×