Sport

Leikurinn kennslubókardæmi

"Okkur finnst við hafa gefið allt í fyrstu tvo leikina. Það er í eðli okkar Íslendinga að þurfa að hafa meira fyrir hlutunum en margar aðrar þjóðir. Við erum ekki jafn stórir og sterkir og andstæðingurinn. Það sér það hver maður," sagði hornamaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson, sem fór mikinn þegar íslenska liðið sökkti þeim slóvensku með ótrúlegum kafla. "Það small allt eftir að við komumst yfir. Það virtist létta á mörgum að komast loksins yfir. Menn hreinlega svifu og sýndu allar sínar bestu hliðar. Það er það sem við verðum að gera. Um leið og við náum þessari forystu léttir pressunni og fleiri taka af skarið. Sóknin gekk mjög vel og við sendum alltaf á fríu mennina," sagði Guðjón Valur, sem var einstaklega ánægður með leik íslenska liðsins. "Þessi leikur var kennslubókardæmi í því hvernig á að spila handbolta. Aldrei að gefast upp og vinna saman. Það er alveg sama hver klikkar, þá er næsti maður tilbúinn við hliðina á honum. Hjá okkur snýst allt um þessa samstöðu og þannig verður það að vera því við erum kannski ekki með eins stóran leikmannahóp og hinar þjóðirnar. Við stöndum saman og það skilaði okkur sigri í dag. Léttirinn eftir svona leik er alveg rosalegur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×