Sport

Íslandsmet hjá Hirti Má

Íslandsmet númer tvö á Ólympíuleikunum féll í gær þegar Hjörtur Már Reynisson bætti eigið met í 100 metra flugsundi. Íslandsmet Hjartar var 55,46 sekúndur en hann kom í mark í Aþenu á 55,12 sekúndum. Glæsilegur tími en því miður dugði það ekki til þess að fleyta Hirti áfram í sundinu. "Þetta var svo sem ágætt en ég hefði viljað synda hraðar," sagði Hjörtur Már af mikilli hógværð eftir sundið. "Ég hefði viljað synda undir 55 sekúndum. Ég er alveg pottþéttur á því að ég á það inni." Hjörtur byrjaði sundið geysilega vel og leiddi um tíma. Það dró síðan af honum á síðustu metrunum og hann játaði það að hann hefði verið orðinn þreyttur. "Mér fannst sundið ganga ágætlega en ég hefði viljað eiga meiri kraft inni síðustu tíu metrana. Ég var eiginlega orðinn sprunginn. Ég ætlaði reyndar að byrja á fullu en ég lagði síðan ekki alveg í það. Það var líka kannski eins gott að ég gerði það ekki," sagði Hjörtur kátur en hann er ekkert á því að slaka á þótt leikarnir séu á enda. Það á að halda áfram á fullri ferð. "Ég tek mér kannski hálfa viku í frí þegar ég kem heim. Ég ætla að æfa áfram því ég fer á HM í október og ég þarf að vinna í snúningnum og stungunni því það mót fer fram í 25 metra laug. Ég get bætt mig mikið þar og ætla að gera það. Það er ekki spurning," sagði Hjörtur Már Reynisson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×