Sport

Erfitt hjá Erni

"Eins og við mátti búast gerði sundkappinn Örn Arnarson ekki miklar rósir í 50 metra skriðsundi í Aþenu í gær. Tími hans, 23,84 sekúndur, er samt viðunandi því hann undirbjó sig ekki fyrir leikana með það í huga að keppa í þessu sundi. Örn var sjötti í sínum riðli. "Ég gerði nokkur mistök í þessu sundi. Ég tók allt of mikið af tökum og var farinn að sóla um mitt sundið. Það verður bara að hafa það, held ég. Ég er samt í sjálfu sér ekkert ósáttur því þetta er alveg þokkalegur tími en hefði vissulega getað orðið betri," sagði Örn skömmu eftir að hann steig úr lauginni í Aþenu í gær en Íslandsmet hans er 23,15 sekúndur. Þrátt fyrir að Ólympíuleikarnir hjá Erni hafi aðeins staðið yfir í tæpar 24 sekúndur að þessu sinni er hann ánægður með dvölina í Aþenu. Hann sagði sjálfur um daginn að þrátt fyrir vonbrigðin að geta ekki keppt í sínum sterkustu greinum ætlaði hann að reyna að hjálpa félögum sínum og vera hluti af hópnum. "Það er góður mórall í þessum hópi og allir ná mjög vel saman sem skiptir öllu. Fólk er sífellt að rífa hvert annað upp þegar á þarf að halda og það er alveg frábært. Það er búið að vera virkilega gaman að taka þátt í þessu hérna," sagði Örn Arnarson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×