Sport
Fljótasti maður heims
Bandaríkjamaðurinn Justin Gatlin, sem sigraði í hundrað metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Aþenu í fyrradag, hefur vakið mikla athygli fyrir hógværa framkomu. Gatlin hefur haldið sér niðri á jörðinni í stað þess að dásama sjálfan sig eins og kollegar hans hafa jafnan gert eftir sigur á stórmótum. "Ég vil vera góð fyrirmynd. Ég er ekki að segja að einhver hafi gert lítið úr íþróttinni en ég vil sýna að það er til fullt af góðu fólki sem keppir á leikunum," sagði Gatlin. "Ég vildi líka sýna að góði strákurinn gæti unnið." Gatlin hljóp hundrað metrana á 9.85 sekúndum, 0,01 sekúndu á undan Portúgalanum Francis Obikwelu og 0,02 sekúndum á undan Maurice Greene frá Bandaríkjunum. Gatlin, sem er fljótasti maður heims um þessar mundir, bætti sitt persónulega met en hann hafði best hlaupið á 9,92. Hann telur að hann eigi meira inni. "Þetta var auðvelt hlaup og ég gerði mörg mistök á síðustu tíu metrunum. Ef ég hefði slakað betur á hefði ég hlaupið á 9.8 sekúndum og jafnvel undir þeim tíma."