Innlent

Hefur dælt peningum í borgina

Stefán Jón Hafstein er að snúa málum á haus með því að saka ríkisstjórnina um að halda Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum í fjársvelti að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, borgarfulltrúa og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. "Það stenst enga skoðun því ríkisstjórnin hefur dælt peningum í Reykjavíkurlistann," segir Guðlaugur Þór. "Ríkið keypti til dæmis Borgarspítalann af borginni og framkvæmdir við samgöngumannvirki í Reykjavík hafa aldrei verið meiri en í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er meira að segja svo komið að Reykavíkurlistinn hafnar fjármunum sem ríkisstjórnin hefur boðið. Meðal annars í mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklubraut." Guðlaugur segir að tekjur borgarinnar af hverjum íbúa hafi aukist meira en tekjur ríkisins. Í fyrsta lagi vegna bætts efnahagsástands og í öðru lagi vegna hækkunar fasteignamats. "Þrátt fyrir þetta hefur forysta Reykjavíkurlistans nýlega gengist við því að fjárhagsstaðan sé slæm. Það er síðan alveg á skjön við það sem þeir sögðu við kjósendur fyrir síðustu kosningar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×