Erlent

Líka kosið í öldungadeildina

Þó að athygli umheimsins beinist einkum að forsetakosningunum í Bandaríkjunum er kosið um fleira, til að mynda um sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings. Ingólfur Bjarni, sem er í Washington, kannaði hvaða áhrif þær kosningar gætu haft. Forseti Bandaríkjanna hverju sinni er án efa einhver valdamesti maður heims. En hann er ekki einvaldur. Á Bandaríkjaþingi sitja 535 þingmenn sem hafa töluverð áhrif á framgang stefnumála forsetans og á morgun verður kosið um nokkurn fjölda sæta á þinginu. Þau sæti gætu skipt sköpum hvað valdajafnvægi þar varðar, og um leið hvað stefnuna næstu fjögur ár snertir. Cristpher Joyner, prófessor við Georgetown-háskóla, telur repúblíkana líklegri til að fá meirihluta í Öldungadeildinni þótt nú muni aðeins einu sæti. Hann segir áhrifa frá forsetakosningunum þó geta gætt. „Ef Kerry verður forseti getur hann dregið með sér demókrata inn á þing. Ef Bush nær endurkjöri getur það á sama hátt orðið til þess að repúblíkanar nái kosningu til Öldungadeildarinnar,“ segir Joyner. Úrslitin gætu hins vegar orðið þveröfug, þ.e.a.s. forseti úr röðum demókrata gæti setið upp með öldungadeild sem repúblíkanar réðu, og jafnvel öfugt þótt það sé ekki eins líklegt. Hvernig sem litið sé á þetta er samt líklegt að þingið verði andsnúið ýmsum stefnumálum sem bæði Bush og Kerry hafa sett fram að sögn Joyners.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×