Innlent

Þórólfur neitaði að hætta

Þórólfur Árnason borgarstjóri neitaði að láta af störfum borgarstjóra á átakafundi með borgarfulltrúum Reykjavíkurlistans í fyrrakvöld. Á fundinum var lögð fram tillaga um að Þórólfur hætti og Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi yrði borgarstjóri. Boðað var til fundarins vegna þess að Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi Vinstri grænna í borgarstjórnarflokki Reykjavíkurlistans, neitaði að lýsa yfir trausti á Þórólfi eftir niðurstöðu Samkeppnisráðs um þátttöku Þórólfs í verðsamráði olíufélaganna. Borgarfulltrúar úr röðum Samfylkingar og Framsóknarflokks lýstu hins vegar yfir stuðningi við Þórólf. Engu að síður sættust þeir á tillögu um að Þórólfur hætti störfum. Það kom mönnum hins vegar í opna skjöldu þegar Þórólfur neitaði að segja starfi sínu lausu. Fundurinn stóð í rúmar tvær klukkustundir og eftir mikil átök varð niðurstaðan sú að Þórólfur fengi tóm til að kynna sjónarmið sín fyrir borgarbúum. Viðmælendum Fréttablaðsins ber engu að síður saman um að Þórólfur verði látinn segja af sér á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×